135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

rannsóknaboranir í Gjástykki.

576. mál
[14:37]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég dreg enga dul á að þetta mál er þannig vaxið að þar hefur ekki verið staðið rétt að verki að mínu mati. Hins vegar eiga allir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, þeirri sem nú situr og öðrum sem áður sem hafa setið og vonandi í framtíðinni líka, að standa vörð um náttúruna og auðvitað ber umhverfisráðherra þar mesta ábyrgð en það er líka á ábyrgð sveitarfélaganna í landinu, sem fara með hið örlagaríka og mikilvæga skipulagsvald, að gæta náttúrunnar. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður, sem leggur það í vana sinn að taka samtöl við þá sem halda hér ræður, nei, það er alveg rétt en hæstv. umhverfisráðherra veitir heldur ekki rannsóknarleyfi. Það liggur algjörlega fyrir og það vita allir þingmenn sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Þess vegna leyfði ég mér að benda á það í upphafi svars míns að ef til vill hefði átt að beina þessari fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra.

Að sjálfsögðu hefði verið miklu betra ef í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, hefði verið staðið rétt að málum. En af einhverjum ótrúlegum og kannski óskiljanlegum ástæðum þurfti að koma þessu máli í gegn 48 klukkustundum fyrir alþingiskosningarnar 12. maí 2007.