135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

innflutningur á fínkorna tóbaki.

606. mál
[15:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra um ólöglegan innflutning á fínkorna tóbaki, hvort fínkorna tóbak hafi verið gert upptækt við tollskoðun og ef svo er, hve mikið magn hefur tollgæslan lagt hald á árlega undanfarin fimm ár?

Ástæðan fyrir því að ég spyr um þetta efni er sú að ég tel alveg ljóst að notkun á fínkorna tóbaki, neftóbaki eða munntóbaki, hefur aukist jafnt og þétt og er það í takt við það sem gerst hefur víða annars staðar. Við höfum mjög sterka fyrirmynd sérstaklega frá Svíþjóð og í ýmsum greinum íþrótta þar sem fínkorna tóbak hefur verið notað. Notkunin er aðallega meðal ungra manna, ungra pilta sem stunda íþróttir og eru vel meðvitaðir um skaðsemi reykinga og vilja ekki láta reykinn hafa hamlandi áhrif á þol og úthald en leita eftir „kikkinu“ eða áhrifunum af nikótíninu í gegnum þetta tóbak. Fínkorna neftóbak hefur mun meira nikótínmagn í hverju grammi en íslenska neftóbakið, er margfalt sterkara og því er eftir nokkru að slægjast að nota það í nös eða munn. Uppsog í gegnum slímhúðina er líka mjög fljótvirkt þannig að áhrifin koma mjög fljótt fram.

Nikótín er sterkasta ávanabindandi efnið sem er á markaðnum í dag, bæði löglegt og ólöglegt. Ég tel að það geri sér ekki allir grein fyrir því að það er sterkara en heróín og kókaín sem ávanabindandi efni. Ástæðan er auðvitað sú að reykingar eða tóbaksnotkun hefur verið leyfð svo lengi að hún er orðin hluti af þeirri menningu sem við búum við. Ég tel að fínkorna tóbaki hafi ekki verið gefinn jafnmikill gaumur og skyldi þar sem áherslan hefur verið lögð á að fólk hætti reykingum og að unglingar byrji ekki að reykja.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra um upptöku í tolli. (Forseti hringir.) Telur hann að tolleftirlitið taki smygli á þessari vöru jafnalvarlega og annarri ólöglegri vöru sem reynt er að flytja inn?