135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

innflutningur á fínkorna tóbaki.

606. mál
[15:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er erfitt að átta sig á því hve mikið magn hefur verið reynt að flytja inn og gert upptækt í tolli af fínkorna tóbaki samkvæmt þessari upptalningu þar sem þetta er allt saman í einni tölu og er svipað í gegnum árin. En einhvers staðar kemur þetta fínkorna tóbak inn í landið því að notkunin er töluverð og ásókn er eftir þessu fínkorna tóbaki þannig að einhverjar hliðarleiðir eru þá fyrir innflutningi á þessu tóbaki.

Ég bar fram fyrirspurnina til hæstv. ráðherra í upphafi máls míns en bætti síðan við þeirri hugrenningu minni hvort hugsanlegt sé að við tolleftirlit sé þessi vara kannski ekki litin mjög alvarlegum augum eða litið fram hjá henni þar sem hún væri ekki talin mjög hættuleg. En á sama tíma og við horfum hugsanlega góðlátlega fram hjá þessari notkun held ég að við gerum okkur ekki alveg grein fyrir því hvaða áhrif þetta sinnuleysi getur haft til lengri tíma litið ef við leyfum þessari þróun að halda áfram og við lendum í sömu sporum og t.d. Svíar sem hafa lent í miklum erfiðleikum vegna neyslu á fínkorna tóbaki og mikilli nikótínfíkn. Fyrir liggur frumvarp um lyfjalög og eins þingsályktunartillaga um að selja nikótíntyggjó í almennum verslunum eða þar sem tóbak er selt án þess að fólk geri sér grein fyrir hversu sterkt eiturefni þetta, því að banvænn skammtur af nikótíni er eitt milligramm á hvert kíló mannslíkamans. (Forseti hringir.) Meðalmaður þarf því samsvarandi mörg milligrömm af nikótíni til að taka inn banvænan skammt (Forseti hringir.) og þá sjáum við hvaða áhrif nikótíntyggjóið getur haft á börn, hæstv. forseti.