135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

innflutningur á fínkorna tóbaki.

606. mál
[15:15]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki hægt fyrir mig að leggja eitthvert mat á það núna hvort tollgæslan gangi nægilega hart fram í eftirliti með þessum varningi. Ég held hins vegar að við getum leitt að því líkur, þó að það sé bagalegt að upplýsingarnar séu ekki nákvæmari, að mestallt það magn sem ég taldi áðan sé fínkorna tóbak því annað tóbak af þessu tagi eða munntóbak er ekki ólöglegt og því frekar ólíklegt að verið sé að reyna að smygla því inn í landið og þar af leiðandi lagt á það hald.

Það er auðvitað þeim mun erfiðara að fylgjast með ólöglegum innflutningi af þessu tagi þegar um er að ræða vöru sem er lögleg í löndunum í kringum okkur og þar af leiðandi ekki verið að leita að því eins og öðrum þeim efnum sem við bönnum innflutning á, þ.e. hefðbundnum fíkniefnum. Þó að einhver kaupi 10 bauka af þessu í útlöndum og komi með þá heim í vasanum eða töskunni hjá sér þá er mjög ólíklegt að lögregluyfirvöld einhvers staðar annars staðar í heiminum gefi út viðvörun eða upplýsingar um að svona innflutningur sé í gangi. Þótt ég efist ekki um heilan hug hv. þingmanns í þessum efnum og áhuga hennar á því að vinna gegn tóbaksnotkun þá held ég að það sé að ýmsu leyti erfiðara að vinna gegn þessu en ýmsu öðru sem við erum að reyna að varna að berist til landsins.