135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

samskipti ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

584. mál
[15:20]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn kemur mér eilítið á óvart vegna þess að hún ber keim af því, eins og hv. þingmaður sagði, að byggjast á orðasveimi eða kjaftasögum frekar en einhverju öðru. Það gilda auðvitað ákveðin lög í landinu um Seðlabanka Íslands. Hann heyrir undir forsætisráðherra og samskipti milli ráðuneytisins og bankans eru í föstum skorðum með mjög eðlilegum hætti og hafa verið í allan vetur. Það eru haldnir reglubundnir formlegir fundir sem eru undirbúnir fyrir fram þar sem báðir aðilar leggja fram ákveðið efni sem síðan er farið yfir og slíkir fundir hafa verið með venjubundnum hætti. En vegna þeirra aðstæðna sem hafa verið að undanförnu, eins og allir þekkja í hinum alþjóðlega fjármálaheimi með þeim áhrifum sem það ástand hefur haft hér á landi, þá hefur þetta samstarf verið enn meira og enn þéttara en oft áður.

Ég hef setið fundi fjármálaráðherra og bankans og forsætisráðherra og bankans meira og minna af og til í 25 ár, mætti fyrst á slíkan fund árið 1983 ef ég man rétt. Það duttu að vísu út nokkur ár þegar hv. þm. fyrirspyrjandi sat í ríkisstjórn ásamt sínum félögum en ég hef verið viðriðinn þetta fundahald afskaplega lengi, bæði sem starfsmaður bankans, fjármálaráðuneytisins og svo ráðherra, bæði í forsætis- og fjármálaráðuneytinu. Ég fullyrði því að hér er allt með eðlilegum og hefðbundnum hætti nema það að ástandið hefur verið þannig að þetta samstarf hefur þurft að vera meira, tíðara og óformlegra en oft áður. Menn hafa verið að funda mjög mikið um ákveðin atriði, bæði símleiðis og með öðrum hætti og síðasti fundurinn um þessi mál var óvænt í morgun. Þetta er því allt saman eins og það á að vera.

Ég hef hins vegar ekki látið taka saman hversu margir þessir fundir eru, hversu mörg símtöl hafa átt sér stað eða hvaða orðsendingar hafa gengið á milli. Mér finnst það ekki hafa nokkra þýðingu í þessu. En ég tel að með svona fyrirspurn sé verið að gera því skóna að það sé eitthvað óeðlilegt í þessu sambandi og það er ekki raunin.

Kem ég þá að síðari spurningunni sem er auðvitað í kjaftasögustíl og er fáránleg, um það hvort ríkisstjórnin hafi fyrir nokkrum mánuðum hafnað eða ekkert gert með beiðni frá Seðlabankanum um að auka gjaldeyrisvaraforðann. Þetta er hrein fjarstæða, herra forseti, og bæði ríkisstjórn og Seðlabanki, eins og ég hef margoft látið koma fram, vinna af fullum krafti í því máli.