135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

samskipti ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

584. mál
[15:23]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að samskipti ríkisstjórnar og Seðlabanka á hverjum tíma séu sem best og ég ætla að vona að ef einhverjir hnökrar eru á þeim samskiptum um þessar mundir þá verði úr því bætt hið bráðasta. En það sem mér finnst kannski ástæða til að nefna eru ummæli einstakra ráðamanna sem torvelda trúverðugleika þeirra verkefna sem Seðlabanka Íslands eru falin, þ.e. að halda aftur af verðbólgu og tryggja stöðugleika hér á landi.

Tveir ráðherrar hafa nýlega lýst því yfir að krónan, hinn íslenski gjaldmiðill, sé ónýt. Fyrir fáum dögum sagði hæstv. utanríkisráðherra opinberlega að krónan væri ónýtur gjaldmiðill en við eigum að búa við hann enn um sinn. Ég vil segja, virðulegi forseti, að mér finnst þessi ummæli afar óheppileg og gagnrýni þau harðlega því ég tel að með slíku tali séu ráðherrar að grafa undan því sem ríkisstjórnin er þó að stefna að.