135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

samskipti ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

584. mál
[15:24]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa talað mjög óvarlega. Þeir verða að gæta sín hvað þeir segja mun meira en margur annar. Það hafa líka komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra fyrirheit um að gripið yrði til aðgerða og að menn mundu líta til þess að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Það kemur aftur fram nú í dag.

Virðulegi forseti. Þessi fyrirheit komu fram fyrir þó nokkru síðan. Svo skilst manni, þó að maður hafi engar sannanir fyrir því, að það hafi verið leitað til norrænna banka og þeir hafi ekki séð sér fært að lána okkur. Kannski er verið að vinna meira í því. En það er a.m.k. ljóst að maður veltir fyrir sér af hverju sé verið að gefa slík fyrirheit ef ekkert skeður svo í langan tíma. Hefði ekki verið nær að bíða með þau? Er það virkilega svo að við megum búast við því á allra næstu dögum að við fáum einhverjar fréttir af því hvort farið verði í að styrkja gjaldeyrisvaraforðann, af því að bæði Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir hafa ítrekað talað um að það sé nauðsynlegt að gera það?