135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

samskipti ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

584. mál
[15:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki ástæða til annars hjá hæstv. forsætisráðherra en að taka þessari fyrirspurn vel og þakka fyrir hana, þakka fyrir tækifæri til fá að upplýsa um þessi mál og svara fyrir um samskipti ríkisstjórnar og Seðlabanka. Það er gott ef hæstv. forsætisráðherra getur fullvissað okkur um að þau séu núna meiri og þéttari en áður hafði verið og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað, enda hef ég tekið eftir því hvernig hæstv. ráðherra hefur farið að haga ummælum sínum um þetta bak páskum. En ég hef því miður ástæðu til að ætla að mikið hafi verið hæft í því sem var almælt á mánuðum þar á undan, að einn angi veikleikanna í hagstjórn okkar og stöðu mála hafi þá verið og lengi verið lítil samskipti og ósamræmt göngulag ríkisstjórnar og Seðlabanka í þessum málum.

Ég tek undir það sem hér er líka sagt að ég held að hæstv. forsætisráðherra eigi miklu frekar að einbeita kröftum sínum að því að hafa hemil á eigin liðsmönnum í ríkisstjórninni og biðja þá sem þar fara með mikilvæg embætti að gæta orða sinna, tala ekki niður gjaldmiðilinn og gera ekki illt verra með einhverju rugli um Evrópusambandsaðild eða hvað það nú er og reyndar mega fleiri taka það til sín sem eru á fundi um þessar mundir.

Það er gott að það liggi ljóst fyrir að ríkisstjórn og Seðlabanki vinni saman að þessu máli. Samskipti þessara aðila eiga ekki að vera leyndarmál. Þvert á móti finnst mér að það eigi að liggja alveg ljóst fyrir hvernig þessir aðilar vinna saman og það má ekki rugla því saman við stjórnskipulega stöðu og stjórnskipulegt sjálfstæði Seðlabankans. Það er að sjálfsögðu á sínum stað þó að Seðlabankinn og ríkisstjórn vinni síðan saman. Það hefur líka gætt tilhneigingar til þess að gera Seðlabankann að sökudólgi og skamma hann fyrir að vera ekki að gera eitthvað allt annað en honum er fyrir mælt samkvæmt lögum og samkomulagi við ríkisstjórn. Þess vegna verða stjórnmálamenn að hafa bein í nefinu til að axla ábyrgð á því sem þeir bera ábyrgð á, sem eru lögin um Seðlabankann og samkomulag stjórnvalda um Seðlabankann um hvernig peningamálastefnunni sé hagað.