135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[15:31]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það var staðfest í félags- og tryggingamálanefnd Alþingis á dögunum með fulltrúum aldraðra og öryrkja ásamt Gylfa Arnbjörnssyni frá ASÍ að ríkisstjórn Geirs H. Haardes hefur svikið samkomulag sem ríkisstjórn Geirs H. Haardes í samstarfi við Framsóknarflokksins gerði við þetta fólk. Það var fyrir forgöngu Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi forsætisráðherra, að þessi sáttanefnd var skipuð og svo mikið var í hana lagt að Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari var formaður enda samkomulagið aldrei nefnt annað en Ásmundarsamkomulagið.

Nú spyr ég þingmenn Samfylkingarinnar sem telja sig verkalýðstengda, ekki munu þeir efast um útreikninga ASÍ ef ég þekki þá rétt: Hvers vegna hafa menn 3,6 milljarða á ári af þessu fólki sem býr við lægstu bætur? Það eru drottinsvik. Sá sem hefur lágmarkstekjur og vantar tíu þús. kr. í launaumslagið sitt í hverjum mánuði finnur sárt fyrir þessu hundsbiti. Við framsóknarmenn fordæmum þennan gjörning og þessi svik.

Hæstv. forsætisráðherra. Mikil er skömm ríkisstjórnarinnar, þetta er lágkúra. Þetta er vont mál fyrir hæstv. forsætisráðherra, þetta er vont mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði samkomulag árið 2006 við Alþýðusamband Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og aldraða um viðmið almannatryggingabóta. Í tillögunum var lagt upp með að hækka þá þrjá flokka tryggingabóta sem mundu mynda lágmarksgrunnlífeyri og setja viðmið við dagvinnutryggingu launafólks í stað lægstu taxta enda gefur það mun raunsannari mynd af raunverulegum launum á vinnumarkaði. Þetta var nokkurs konar kjarasamningur við öryrkja og eldri borgara enda ríkissáttasemjari sem stýrði verkinu sem formaður nefndarinnar. Við kjarasamninga eiga menn að standa, hæstv. forsætisráðherra, við svona samninga eiga menn að standa.

Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur breytt þessu viðmiði í það að miða við lægsta taxta sem finnast í launatöflu. Það er aldeilis drenglyndi hjá Samfylkingunni þegar hún er komin í ríkisstjórn, að taka þátt í því með Sjálfstæðisflokknum að svíkja samkomulag sem gert var á hátíðisdegi í ráðherrabústaðnum. Það veldur því að bætur almannatrygginga eru um tíu þús. kr. lægri í dag en ef viðmið fyrri ríkisstjórnar hefði verið óbreytt. Þar með er allur ávinningur af samkomulaginu síðan 2006 tekinn til baka og gott betur. Fjárframlög til lífeyrisþega skerðast eins og ég sagði áður um 3,6 milljarða á á ári. Það er gott að sjá prestinn hér við þær aðstæður ganga í salinn. (Gripið fram í.) Ofan á kjaraskerðingu ríkisstjórnarinnar mun vaxandi verðbólga éta snarlega þá hækkun sem þessum hópum var úthlutað nýverið upp á 7,3%.

Hæstv. forsætisráðherra svaraði fyrirspurn minni í óundirbúnum fyrirspurnatíma um þessi mál hér á Alþingi fyrir stuttu. Hann sagði að ekkert hefði breyst í viðmiðun útreikninga á kjarabótum elli- og örorkulífeyrisþega. Það er ekki rétt og auðvelt er að sjá það svart á hvítu. Ég treysti útreikningum Alþýðusambands Íslands fullkomlega, ég trúi útreikningum eldri borgara og öryrkja í þessu efni. Þess vegna tek ég þetta mál hér upp í dag til umræðu og vonandi verður það til þess að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti hér í þinginu vilji efna það samkomulag sem gert var 2006. Ég álít að það standi svona rétt eins og hver annar kjarasamningur. Svona er ekki hægt að gera.