135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[15:41]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að fylgja eftir fyrirspurn sinni um vanefndir á hækkun lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja og taka undir málflutning hv. varaþingmanns Ölmu Lísu Jóhannsdóttur sem vakti athygli á málinu hér í þingsal Alþingis 1. apríl sl. eða þann dag sem lífeyrisgreiðslur hækkuðu um 4%, 4–5 þús. kr. í stað 18 þúsund eins og lífeyrisþegar höfðu vænst.

Hæstv. forseti. Það má veifa prósentum og reikna sig frá staðreyndum eins og mér sýnist oft gert þegar vísað er til prósentuhækkana frekar en nefna hækkanir í rauntölum þegar verið er að semja um lág laun eða upphæð lífeyrisgreiðslna. Staðreyndin í þessu máli er sú að þegar lífeyrisþegar sem byggja afkomu sína á lífeyristekjum sitja þeir enn eftir sem láglaunahópur. Það er ekkert sem bendir til þess að ríkisstjórnin ætli sér að hækka lífeyrisgreiðslurnar til jafns við lægstu laun eins og gert var í síðustu kjarasamningum ASÍ.

Í Ásmundarsamkomulaginu svokallaða var samið um 18 þús. kr. hækkun á lægstu laun í upphafi samningstímans. Í þessu fólst viðurkenning á því að lægstu laun yrði að hækka umfram önnur þar sem flatar prósentuhækkanir kjarasamninga undanfarinna tímabila hafa ekki skilað sér í hárri krónutölu til þeirra sem eru á lægstu töxtunum. Ríkisstjórnin hafði í kjölfar síðustu kjarasamninga tækifæri til að leiðrétta lífeyrisgreiðslurnar og viðurkenna að þær svöruðu til lægstu launataxta. Það hefði hún getað gert í fullri sátt við launþegasamtökin og fólkið í landinu. Þess í stað fer ríkisstjórnin þá leið að reikna út hækkanir meðallauna. Hún hafði tækifæri til að standa undir væntingum lífeyrisþega en hún brást og Samfylkingin þá sérstaklega sem fór í síðustu alþingiskosningum með fögur fyrirheit um að bæta afkomu lífeyrisþega.

Hæstv. forseti. Hvenær geta lífeyrisþegar vænst þess að staðið verði við kosningaloforðin? Þeir geta ekki beðið fram til næstu kosninga í ljósi þess að það eru (Forseti hringir.) versnandi kjör þessa fólks vegna verðhækkana, aukinna þjónustugjalda og hækkandi verðbólgu.