135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[15:46]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Umræðan sýnir auðvitað að það er ekki jafnræði með elli- og örorkulífeyrisþegum og þeirri launaþróun sem verið hefur í landinu. Það var samið um 18 þús. kr. sérstaka hækkun á lægstu launin í síðustu kjarasamningum. Sú hækkun hefur ekki gengið til eldri borgara og öryrkja.

Þó nú sé talað um að það eigi að bæta stöðu þeirra sem lakast eru settir í lífeyriskerfinu með sérstakri 25 þús. kr. greiðslu þá mega menn ekki bera það hér á borð eins og það sé eitthvað sem kemur í buddu fólksins. Menn verða að tala um hlutina eins og þeir eru. Þegar búið er að skerða þær bætur sem koma frá Tryggingastofnun, þ.e. 25 þús. kr., með 35% skerðingarreglu, þegar búið er að taka skattinn af upphæðinni að fullu eins og tekjuskattsprósentan er, þá heldur fólkið sáralitlu eftir af þeirri upphæð eða innan við 10 þús. kr. Það er staðreyndin með þær 25 þús. kr. sem eru settar í gegnum lífeyrissjóðina.

Ríkið veit auðvitað að það fær mest af þeim peningum til baka aftur sem settir eru út með þessari aðferð vegna skerðingarreglnanna og skatta. Menn eiga bara að tala um hlutina eins og þeir eru en ekki eins og menn segja hér að þetta sé sérstök uppbót sem komi fólki til góða.

Það eru auðvitað rauntekjurnar sem skipta máli fyrir eldri borgara, fyrir öryrkja og fyrir láglaunafólkið. Við í Frjálslynda flokknum lögðum það til við gerð síðustu kjarasamninga að hafður væri sérstakur persónuafsláttur fyrir láglaunafólkið sem gerði það að verkum að rauntekjur þess hækkuðu verulega. Sú aðferð ein og sér hefði bætt kjör láglaunafólks, eldri borgara og öryrkja miklu betur og varanlegar en það sem verið er að gera hér í dag.