135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[15:55]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Skinhelgi stjórnmálanna er vel lýst með þessum málatilbúnaði framsóknarmanna um bætur almannatrygginga. Eftir tólf ára setu í ríkisstjórn með forræði yfir heilbrigðis- og félagsmálum skildu þeir þannig við málefni aldraðra að það hefur þurft tæplega 10 milljarða kr. fjárveitingar á fyrsta ári núverandi ríkisstjórnarinnar til að rétta kúrsinn og draga úr ranglætinu og vanrækslunni. (Gripið fram í.) Framsóknarflokkurinn hefur því miður ekki úr háum söðli að detta.

Hæstv. ríkisstjórn hefur látið hendur standa fram úr ermum til að bæta þetta ástand með hækkuðum bótum, afnámi tekjutengingar, hærri persónufrádrætti, auknum frítekjumörkum og fleira er í bígerð.

Það er hins vegar rétt að lífeyrisbætur hækkuðu minna en efni stóðu til eftir að samið var á hinum almenna vinnumarkaði nú fyrr á árinu. Fyrir vikið hefur gliðnun milli dagvinnutaxta, lægstu dagvinnutaxta og ellilífeyrisbóta, farið aftur af stað. (Gripið fram í.) Hér munar um 9 þús. kr. á mánuði. Ég get upplýst að fern samtök um málefni aldraðra, Landssamband eldri borgara, Félag eldri borgara í Reykjavík, Samband eldri sjálfstæðismanna og 60+ í Samfylkingunni hafa í sameiginlegri yfirlýsingu hvatt til þess að leiðrétta þennan halla.

Ég minni á að ríkisstjórnin tilkynnti í yfirlýsingu sinni að gerð yrði úttekt á framfærsluþörf aldraðra og ákvarðanir um bætur teknar í framhaldinu og eigi síðar en 1. júlí næstkomandi. Ég geng þar af leiðandi út frá að þegar því ferli er lokið muni aldraðir fá sinn hlut bættan.

Hæstv. ríkisstjórn hefur stórbætt hagsmuni og lífskjör aldraðra á síðustu tólf mánuðum. Ég er stoltur af þeirri frammistöðu og geng út frá því að áfram verði haldið á þeirri braut til þess að moka flórinn eftir Framsóknarflokkinn.