135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[16:02]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það getur líka verið betra, hv. þingmaður, að veifa öngvu tré heldur en röngu. Það hefði hv. þingmaður átt að muna áður en hann hóf mál sitt hér í dag því hann hefur því miður farið með rangt mál. Hann getur ekki heimfært útfærsluna frá því sumarið 2006 upp á þá afgreiðslu sem átti sér stað nú um daginn varðandi hækkun bóta. Það er ekki sama málið. Það var ekki gerður neinn samningur um það.

Það hittist þannig á (Gripið fram í.) sumarið 2006 að það voru nákvæmlega þær aðstæður að það var hægt að sameina bótaflokka í samræmi við tillögur nefndarinnar sem þá var að störfum þannig að það urðu 15 þús. kr., eins og hin almenna hækkun á vinnumarkaðnum var. Það var reyndar hálfgerð tilviljun að það atvikaðist þannig en hefur ekkert með hina venjulegu útfærslu á þessu máli að gera sem var framkvæmd allan tímann sem Framsóknarflokkurinn sat í ríkisstjórn, bæði í félags- og heilbrigðismálaráðuneytinu. Ég minnist þess ekki af okkar góða og langa samstarfi í ríkisstjórn að hv. þingmaður t.d. hafi gert neinar sérstakar athugasemdir við þá útfærslu.

Nei, virðulegi forseti. Nýja ríkisstjórnin sem nú situr hefur tekið þetta mál mjög föstum tökum og er að vinna að margvíslegum umbótum í þessu efni. Auðvitað verður að taka með í reikninginn, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, að það er fleira sem kemur inn í tekjur ellilífeyrisþeganna en bara bætur almannatrygginganna. Það þarf að skoða það nákvæmlega, hvernig aðrar tekjur hafa þróast með tilliti til þeirra 18 þús. kr. sem hér eru gerðar að umtalsefni.

Síðan vildi ég vekja athygli á einu sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði sem skiptir miklu máli en það er að lífeyrisþegarnir eru einu hóparnir sem hafa sjálfkrafa verðtryggingu meðal landsmanna. Ef það kemur á daginn að verðbólgan hefur verið meiri en sem nemur hækkun tryggingabótanna þegar þetta ár verður gert upp þá verður það bætt. Það stendur í lögum. Það á ekki við um almenna launþega en það á við um þennan hóp og að sjálfsögðu verður við þetta (Forseti hringir.) staðið.