135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar, Lýðheilsustöð.

[10:39]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég hvet þingmenn til að fara aðeins yfir efni sjúkratryggingafrumvarpsins. Þegar menn skoða það — og það er nákvæmlega í þess anda sem rætt hefur verið og kynnt — þá kemur í ljós að fyrst og fremst er verið að færa þætti sem eru í öðrum lögum yfir í þennan lagabálk. Ég hvet sérstaklega hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur til að fara yfir heilbrigðislögin sem voru samþykkt síðasta vor af öllum þingmönnum. Þar er sérstaklega skýrt kaupendahlutverk hins opinbera en við setjum hér þá aðila sem hafa sinnt samninganefnd heilbrigðisráðherra, það sem snýr að heilbrigðisráðuneytinu að öðru leyti og sjúkratryggingastofnun, inn í eina stofnun þannig að hér eru viðhöfð fagleg og góð vinnubrögð. Það er í rauninni það sem þetta frumvarp gerir. Ég er alveg sannfærður um að ef menn skoða þetta og fara vel yfir málið þá komast þeir enn að þeirri niðurstöðu að góð sátt ætti að geta náðst um þetta, enda er hér um að ræða atriði sem hafa verið rædd og samþykkt á þinginu áður. Ég vek athygli á því að heilbrigðislögin voru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Síðan varðandi stofnanir þá liggur alveg fyrir og hefur legið fyrir að mjög miklar breytingar verða á lýðheilsumálum og sömuleiðis þeirri stofnun sem snýr að þeim þætti. Þess vegna var farið í þessa aðgerð en því fer hins vegar fjarri að ég vilji (Forseti hringir.) eitthvað annað en að nýta krafta þess starfsmanns sem þar er og ég vonast til að við munum gera það eins lengi og mögulegt er.