135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

framlag Íslands til umhverfismála.

[10:54]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Sannleikurinn er sá að Ísland hefur mjög margt fram að færa í umhverfismálum og við eigum að vera stolt af því sem við höfum gert vel. Við eigum ekki alltaf að tala eins og gert hefur verið hér, að hér sé allt í kaldakoli þegar kemur að umhverfismálum. Það er ekki rétt, heimsbyggðin tekur eftir því. (Gripið fram í.)

Ég hefði nú haldið að af minna tilefni hefðu menn stokkið hér upp í ræðustól og fjallað um það sem fram kom í Newsweek, en það var ekki svo þegar kom að umræðu um umhverfismál. Ég held að menn ættu einmitt að fagna því og þakka fyrir það að talað sé af viti og alvöru um það sem við erum að gera á Íslandi. Ég held að við eigum að þakka fyrir það. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra í því að það varðar ekki flokka, það varðar landið sjálft. Það varðar hagsmuni Íslands og þar eigum við öll að standa vörð. Það er skylda okkar og heiður að gera það, og það á við í umhverfismálum einnig. (Gripið fram í: Standa vörð um Þjórsá.)