135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

reglugerð um menntun tónlistarkennara.

[10:59]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn, ítarlega og mikilvæga fyrirspurn sem tengist máli sem áður hefur komið upp — frumvarp sem ég hef áður lýst yfir að ég muni leggja fyrir á næsta haustþingi sem er þá heildarendurskoðun á lögum um tónlistarskóla.

Það er alveg ljóst og ég hef ekkert leynt því að það á eftir að semja um ákveðin málefni á milli ríkis og sveitarfélaga hvað tónlistarskólana varðar. En málið er brýnt, það hefur legið allt of lengi óleyst og ég mun reyna að beita mér fyrir því að það verði leyst í samhengi og í samræmi við það sem hv. þingmaður kom inn á í fyrirspurn sinni. Það er rétt og ég vil undirstrika það líka að reglugerðin, sem heimildin í lögunum frá 1975 veitir, hefur ekki verið sett enn þá.

Samhliða því að við munum fara í endurskoðun á lögum um tónlistarskóla munum við fara yfir tónlistarkennaramenntunina líka og ég held að ágætt tækifæri gefist nú þegar við erum með heildarendurskoðun á öllu skólakerfinu fyrir framan okkur.

Hæstv. forseti. Já, ég mun fara yfir tónlistarkennaramenntunina samhliða endurskoðun á tónlistarskólunum.