135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

[11:13]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að taka þetta mál upp með þessum hætti. Hv. þingmaður spyr hver stefna ríkisstjórnarinnar sé í heilbrigðismálum. Eins og hv. þingmaður veit hefur sjaldan verið kveðið eins skýrt á um stefnu ríkisstjórnar í heilbrigðismálum þjóðarinnar og gert er í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar frá því í maí á síðasta ári. Mér er ljúft og skylt að endurtaka fyrir þingheimi nokkuð af því sem þar kemur fram.

1. Veita skal heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða.

2. Kostnaðargreina skal heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun og heilbrigðisstofnanir taki inn fjármagn er fylgi sjúklingum.

3. Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum.

4. Tryggt verði að allir hafi að henni jafnan aðgang óháð efnahag.

5. Stóraukin áhersla verði lögð á forvarnir á öllum sviðum og stuðlað að heilbrigðari lífsháttum.

6. Leita skal leiða til að lækka lyfjaverð og einfalda greiðsluþátttöku hins opinbera.

Þetta kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er stefnan í heilbrigðismálum eins og í öðrum ríkisrekstri að gera reksturinn markvissari og skilvirkari.

Markmið ríkisstjórnar í heilbrigðismálum eru skýr:

1. Að tryggja sjúkratryggðum á Íslandi aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu og aðstoð sem á hverjum tíma eru tök á að veita og að allir sjúkraþegar njóti heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu.

2. Að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar eftir því sem frekast er unnt á hverjum tíma.

Að gefnu tilefni vegna fyrirspurnar þingmannsins vil ég vekja athygli á því að það er stefnan að leitast við að tryggja öllum sjúkratryggðum einstaklingum gott aðgengi að þjónustunni hvar sem þeir eru búsettir. Þessu hyggst ríkisstjórnin ná fram með því að styrkja hlutverk ríkisins til kaupa á heilbrigðisþjónustu. Þetta verður gert með því að sameina hjá einni stofnun þá verkþætti hjá ríkinu sem fara með samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu og greiðslu endurgjalds fyrir hana. Þessa verkþætti er í dag að finna hjá samninganefnd heilbrigðisráðherra, fjármála- og rekstrarsviði í heilbrigðisráðuneytinu og sjúkratryggingasviði Tryggingastofnunar ríkisins. Með sameiningu þessara verkþátta og frekari styrkingu þeirra nást samlegðaráhrif þeirrar þekkingar sem er að finna hjá ólíkum aðilum sem starfa nú á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Í takt við kröfur um aukna sérfræðiþekkingu vegna samninga, kaupa og greiðslna fyrir heilbrigðisþjónustu og vaxandi kröfur um gegnsæi í samskiptum ríkisins og borgaranna er nauðsynlegt að byggja upp og styrkja slíka sérþekkingu á einum stað innan heilbrigðiskerfisins. Samningar milli veitenda heilbrigðisþjónustu og kaupenda verða það samskiptaform sem ákvarða mun tegund, magn, gæði og endurgjald fyrir veitta þjónustu svo og fyrirkomulag eftirlits og greiðslu, þ.e. hvort um er að ræða fastar greiðslur eða árangurstengdar að einhverju leyti.

Á undanförnum árum hafa forsvarsmenn þjónustustofnana kallað eftir samningum þar sem skýrar sé kveðið á um hvaða þjónustu þeim sé ætlað að veita, magn, gæði þjónustu og fjárfestingar. Því má segja að nú sé fyrir alvöru með skipulegum hætti hafin sú samningavæðing heilbrigðisþjónustunnar sem aðilar innan hennar hafa beðið eftir. Skipulag heilbrigðismála, þ.e. hin nýja stofnun sjúkratrygginga sem nánar er fjallað um í frumvarpi sem nú er komið fram í þinginu, mun taka mið af þessum áformum ríkisstjórnarinnar og byggja á fjórum meginstoðum undir yfirstjórn heilbrigðisráðuneytisins:

Eftirlitsstofnun með veitingu og framkvæmd heilbrigðisþjónustu, þ.e. landlækni og Lyfjastofnun, sem ætlað er að tryggja að þjónusta sé veitt með öruggum hætti og í samræmi við kröfur um gæði og árangur, þjónustustofnun, þ.e. heilbrigðisstofnun, sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og fyrirtækjum sem veita almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu og að síðustu stofnun sem m.a. annast lýðheilsumál, samhæfingu forvarna o.fl.

Aðeins vegna fyrirspurnar hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um hvort hið opinbera muni halda áfram að greiða sinn hlut með almennum sköttum eða sé með áform um breytingar á fjármögnun ríkisins á sínum hlut er skemmst frá því að segja að önnur fjármögnun hefur ekki verið rædd.

Í öðru lagi spurði hann hvaða breytingu hæstv. ríkisstjórn hygðist gera á þjónustugjöldum sjúklinga. Þingmaðurinn fór yfir þann frumskóg sem þau eru. Þau hafa verið sett í sérstaka nefnd undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Þar er unnið að einföldun og því að gera það kerfi skilvirkara og réttlátara.

Einnig spyr hv. þingmaður — sem er mjög við hæfi hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni — um Jónínunefndina og niðurstöður hennar. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér það plagg því að það er algerlega hárrétt hjá þingmanninum að það er mjög vel unnið og margt þar sem einmitt er unnið að núna. Þar er m.a. lagt mikið upp úr því að styrkja hlutverk kaupenda hjá heilbrigðisþjónustunni, nákvæmlega það sama og komið hefur fram í flestum úttektum og skýrslum sem hafa verið gerðar um íslensk heilbrigðismál. Það er nákvæmlega það sem menn eru að gera, þ.e. í praxís, en í raun voru menn búnir að gera það með síðustu lögum um heilbrigðisþjónustu sem allir þingmenn á þinginu greiddu atkvæði með.