135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

[11:19]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Íslenskt heilbrigðiskerfi er í hættu og almenningur óttast um afdrif þess í höndum Sjálfstæðisflokksins. Það er full ástæða til að óttast. Menn þekkja samþykktir flokksins um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, og verk og vinnubrögð hæstv. heilbrigðisráðherra að undanförnu hafa ekki orðið til þess að draga úr óttanum.

Stjórnarsáttmáli þessarar ríkisstjórnar kveður á um að skapa skuli svigrúm til fjölbreytilegra rekstrarforma með útboðum og þjónustusamningum. Við vitum hvað þetta þýðir. Þetta þýðir frekari einkavæðingu með einkarekstri og einkafjármögnun. Forsætisráðherra sagði í Valhöll í haust að nú væri lag að sveigja heilbrigðisþjónustuna betur að stefnu Sjálfstæðisflokksins en áður. Og Vilhjálmur Egilsson, sérlegur yfirráðherra í málefnum Landspítalans, hefur kynnt hugmyndir um að hlutafélagavæða spítalann.

Meðan þessu fer fram hefur algjörlega gleymst að spyrja um vilja ríkisstjórnarinnar. Það var nefnilega ekki kosið um þá stefnu Sjálfstæðisflokksins síðastliðið vor að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Það var heldur ekki spurt á kjörseðlinum hvort Samfylkingin ætti að afhenda Sjálfstæðisflokknum heilbrigðisráðuneytið.

En þjóðin hefur verið spurð og það hefur komið fram í nýrri könnun frá 2006 að 81,5% Íslendinga vilja að við leggjum meira fé í heilbrigðisþjónustuna okkar. 81% vill að hið opinbera reki sjúkrahúsin. Aðeins 0,8% vildu að sjúkrahúsin væru aðallega rekin af einkaaðilum, 18,5% vildu að þau yrðu rekin sameiginlega og jafnt af einkaaðilum og hinu opinbera.

Í hvers umboði er þá Vilhjálmur Egilsson að undirbúa hlutafélagavæðingu Landspítalans? Hver kaus hann til þeirra verka? (GÁ: … Samfylkingarinnar.) Maður spyr sig: Ætlar Samfylkingin áfram að hlaupa eftir landsfundarsamþykktum Sjálfstæðisflokksins og kröfum Samtaka atvinnulífsins? Og síðast en ekki síst: Ætlar Samfylkingin að fara að kröfum hæstv. heilbrigðisráðherra hér og þvinga í gegn (Forseti hringir.) lagabálk um sölumiðstöð heilbrigðisþjónustu sem er næsta (Forseti hringir.) skref í skipulagðri eyðileggingarherferð á íslenska heilbrigðiskerfinu?