135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

[11:27]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er ljóst í samstarfssamningi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn að stefnt er að því að veita heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Það er líka ljóst og hefur komið fram að fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar er af opinberu fé. Það er líka ljóst að það á að reyna að skapa svigrúm til fjölbreytilegra rekstrarforma. Hvers vegna? Vegna þess að við treystum fólki til að sinna þessari þjónustu alveg jafn vel og aðrir virðast treysta eingöngu hinu opinbera til.

Við treystum fólki til þess að koma að fjölbreyttu rekstrarformi til að veita betri og öflugri þjónustu. Það hefur sýnt sig á undanförnum dögum með samningi um t.d. augnsteinaaðgerðir. Með þeim samningi sem þar var gerður er verið að fjölga þeim aðgerðum úr 1800 í 2600 með þessum hætti, með fjölbreytilegra rekstrarformi, með því að hleypa fleirum að. Við treystum fólki. Það má kannski segja að það sé öfugt með margan annan hér inni.

Það er líka klárt í þessum samningi að heilbrigðisþjónustan í landinu er fyrir alla óháð efnahag. Það er algjörlega kýrskýrt. Sú umræða sem hér fer fram um eyðileggingu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisráðuneytinu á heilbrigðiskerfi þjóðarinnar (Gripið fram í.) er algjörlega óásættanleg. Hún er ómálefnaleg og hún er óásættanleg.

Það er verið að stefna að því að veita heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða, betri og öflugri þjónustu með breyttum rekstrarformum í samræmi við það sem stendur í samningnum og enginn er að tala um að einkavæða. Það er tími til kominn að hv. þingmenn Vinstri grænna viti hvað orðið einkavæðing þýði. Og takk fyrir gjammið, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Þú hefur ekki hugmynd um hvað orðið einkavæðing þýðir. (Gripið fram í.)

(Forseti (MS): Forseti minnir hv. þingmenn á að beina orðum sínum til forseta.)