135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

[11:30]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Hún er mjög mikilvæg. Eitt vil ég þó gagnrýna í framsögu hans. Þegar hann talar um að sú kostnaðarskipting sem nú er á milli hins opinbera og einstaklingsins sé ásættanleg og það sé eðlilegt að viðhalda henni, þá tel ég að sjúklingurinn sé að greiða allt of mikið. Það hefur komið fram í skýrslum landlæknisembættisins að efnalítið fólk hefur ekki efni á því að sækja heilbrigðisþjónustu sem skyldi. Ég vísa þar sérstaklega til tannlæknaþjónustunnar en einnig til annarrar þjónustu. Þetta þekkir fólk sem þarf að leita þjónustu á Landspítalanum og í heilbrigðiskerfinu og þarf að greiða mikla peninga fyrir hana.

Það er einnig mjög mikilvægt að ríkisstjórn hafi stefnu í heilbrigðismálum, en hvernig birtist sú stefna okkur? Hún hefur t.d. birst okkur í því að það verður dregið úr framlagi til Landspítalans, ekki í krónum talið, ekki samkvæmt vísitölu heldur samkvæmt umfangi og verkefnum spítalans og á þeim forsendum hefur Ríkisendurskoðun farið í þau mál. Hún hefur líka birst okkur í því að ríkisstjórnin og Landspítalinn hafa boðið út heilar deildir á spítalanum. Hún hefur birst okkur í því að það er byrjað að úthýsa starfsstéttum á borð við læknaritara til að spara á kostnað þessara stétta í launum og kjörum. Þetta eru staðreyndir.

Við höfum líka orðið vitni að því að það er verið að opna heilbrigðisstofnanir eins og Heilsuverndarstöðina ehf. sem auglýsir 20% afslátt til gullkorthafa Kaupþings. En Samfylkingin sér ekkert og vill ekkert segja nema að það sé ekkert að breytast. (Forseti hringir.) Það er heilmikið að breytast. Það er verið að gera grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu.

Að lokum, hæstv. forseti. (Forseti hringir.) Þegar hæstv. heilbrigðisráðherra talar um að allt sé þetta gert á grundvelli heilbrigðislaga (Forseti hringir.) sem allur þingheimur samþykkir þá vil ég benda honum á efasemdir okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. (Forseti hringir.) Við óttumst að þær heimildir sem þarna væri verið að opna á mundu leiða til þess sem nú er að gerast undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.