135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

[11:35]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við framsóknarmenn erum mjög stolt af því heilbrigðiskerfi sem hér er rekið. Það er rekið á félagslegum grunni og við höfum alltaf lagt mikla áherslu á að fólk hafi gott aðgengi að þjónustunni á viðráðanlegu verði. Núna er kostnaðarhlutdeild sjúklinga í kringum 17% sem er frekar lágt miðað við önnur lönd og við viljum halda því þannig. En það þarf örugglega að skoða hvernig þeim byrðum er dreift. Það þarf örugglega að skoða það.

Auðvitað þarf að þróa heilbrigðiskerfið áfram. Það stoppar ekki núna þótt komin sé ný ríkisstjórn. Auðvitað þarf að þróa það en það er ekki sama hvernig það er gert og við framsóknarmenn þekkjum áhuga Sjálfstæðisflokksins á umfangsmiklum einkarekstri og við kunnum líka að lesa, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, við kunnum að lesa. Við höfum lesið út úr samþykktum landsfundar Sjálfstæðisflokksins að hann hefur samþykkt þá stefnu að hann vilji stefna að einkavæðingu, ég er ekki að tala um einkarekstur, einkavæðingu á heilbrigðissviði. Það stendur í ályktunum landsfundarins og því velti ég því fyrir mér hvort hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi greitt atkvæði gegn þessari ályktun. Ég velti því fyrir mér af því að Sjálfstæðisflokkurinn virðist reyna að hlaupa frá sinni stefnu alla daga þegar á hana er minnst. Og það er ekki skrýtið að þingmenn í stjórnarandstöðu vilji halda þessu til haga af því að við vitum um tilhneigingar Sjálfstæðisflokksins í þessa veru.

Hér er búið að tala svolítið um Landspítalann. Það er búið að skapa geysilegan óróa um Landspítalann. Það er búið að reka þar frá og flæma burt forustuna og forustan sem var flæmd burt hefur haldið því á lofti opinberlega og það sé rétt að stefnan sé óljós, mjög óljós varðandi Landspítalann. Í lögum stendur að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi heimildir til að fara í útboð á þjónustu. Það er rétt, nú þegar. Það stendur líka að Landspítalinn á að vera háskólasjúkrahús og þar eigi að fara fram kennsla og þjónusta í megingreinum í sjúkdómafræði. (Forseti hringir.) Við munum algerlega hafna því ef á að rústa þeirri starfsemi sem fer fram á Landspítalanum og sporin hræða í þessu öllu, virðulegur þingmaður.