135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[11:53]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á ósamræmi sem er á milli nefndarálitsins og breytingartillögunnar í þessu tilviki. Um er að ræða að bæta við frumvarpsgreinina ákvæði sem gerir það að verkum að umsækjandi um fæðingarorlof þarf að samþykkja að skattyfirvöld láti Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru.

Í breytingartillögunum er ekki kveðið á um samþykki umsækjanda heldur aðeins að umsækjandi hafi verið upplýstur um þetta. Það tel ég ekki vera eins og um var samið í nefndinni og reyndar ekki eins og ég tel að hann eigi að líta út þannig að ég mun sitja hjá við þessa tillögu. Framsögumaður nefndarinnar gat um að málið yrði tekið aftur inn í nefnd milli 2. og 3. umr. og þetta atriði tekið fyrir og lagfært og ég bind vonir við það, virðulegi forseti.