135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

sértryggð skuldabréf.

611. mál
[12:01]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

[Hávaði í bílflautum utan dyra.] Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um sértryggð skuldabréf.

Markmið frumvarpsins er að gera breytingar á lögum um sértryggð skuldabréf. Lýtur breytingin að stöðu afleiðusamninga komi til gjaldþrots útgefanda sértryggðs skuldabréfs en lög um sértryggð skuldabréf tóku gildi 14. mars síðastliðinn (GAK: ... hv. þm. að hækka róminn.) og vinnur Fjármálaeftirlitið nú að gerð reglna sem því er heimilt að setja á grundvelli laganna. Ýmsar ábendingar og fyrirspurnir um efni laganna hafa borist frá fjármálafyrirtækjum. Meðal annars hafa komið fram ábendingar um að í 14. gr. laganna sé sérstaklega tekið fram að sértryggð skuldabréf falli ekki í gjalddaga þótt bú útgefanda sé tekið til gjaldþrotaskipta enda sé þetta nauðsynlegt þar sem ella ætti hin almenna regla 1. mgr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti við. Á hinn bóginn sé þess ekki getið að afleiðusamningar sem gerðir kunna að hafa verið samkvæmt lögunum falli ekki í gjalddaga. Ekki þótti ástæða til þess að taka þetta fram þar sem 1. mgr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti tekur til einhliða krafna á hendur þrotamanni, sem þó getur vissulega sprottið af samningi sem upphaflega var gagnkvæmur. Afleiðusamningar eru gagnkvæmir samningar sem eiga undir XV. kafla laga um gjaldþrotaskipti en samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laga um gjaldþrotaskipti getur því skiptastjóri tekið ákvörðun um að þrotabúið gangi inn í afleiðusamning. Ljóst er að það ber skiptastjóra að gera í slíkum tilvikum, ella gæti hann bakað sér skaðabótaábyrgð. Bent hefur verið á að óheppilegt geti verið að skiptastjóri hafi val um það hvort þrotabúið gangi inn í afleiðusamninga eða ekki, auk þess sem bent hefur verið á að afleiðusamningar séu oft þannig að um einn aðalsamning sé að ræða og marga undirsamninga og geti staða þeirra verið mismunandi, þannig að það kunni að vera hagstætt fyrir þrotabúið að skiptastjórinn ákveði að þrotabúið skuli ganga inn í suma undirsamninga en ekki aðra. Ekki er talið líklegt að þessi staða komi upp. Þó má taka undir að ekki sé víst að það sé heppilegt að skiptastjóri hafi val um það hvort þrotabúið skuli ganga inn í afleiðusamninga eða ekki og öruggast væri að mælt væri fyrir um það í lögunum að þrotabúið gangi inn í slíka samninga, án fyrirvara. Með því móti má komast hjá því að skiptastjóri lendi í þeirri stöðu að þurfa að velja á milli hagsmuna kröfuhafa samkvæmt sértryggðu skuldabréfi og hagsmuna annarra kröfuhafa. Þess vegna er lagt til í frumvarpi þessu að bætt sé málslið við 14. gr. þess efnis að búið taki við réttindum og skyldum samkvæmt afleiðusamningum sem gerðir hafa verið á grundvelli laganna.

Einnig hefur verið vakin athygli á því að í lögunum sé gert ráð fyrir að bæði hin sértryggðu skuldabréf og afleiðusamningar njóti fullnusturéttar í tryggingasafninu. Ekki sé hins vegar tekið fram í lögunum hver innbyrðis staða þessara skuldbindinga er, meðal annars hvort skuldbindingar samkvæmt afleiðusamningum njóti stöðu samkvæmt 111. gr. gjaldþrotaskiptalaga, líkt og sértryggðu skuldabréfin, eða hvort staða afleiðusamninganna sé önnur.

Þegar þrotabú gengur inn í gagnkvæman samning samkvæmt reglum XV. kafla laga um gjaldþrotaskipti gildir regla 3. mgr. 91. gr. laganna um rétthæð greiðslna sem inna á af hendi smátt og smátt. Slíkar greiðslur njóta stöðu samkvæmt 3. tölul. 110. gr., þ.e. sem skiptakostnaður. Samkvæmt 3. mgr. 111. gr. laganna njóta greiðslur samkvæmt afleiðusamningum, tengdum útgáfu sértryggðra skuldabréfa, aðeins stöðu eins og þær væru skiptakostnaður af verðmæti hinnar veðsettu eignar. Samkvæmt þessu njóta greiðslur samkvæmt afleiðusamningum sömu stöðu og kröfur samkvæmt sértryggðu skuldabréfi.

Til að taka af öll tvímæli, þ.e. ef ekki yrði talið að afleiðusamningur uppfyllti það skilyrði að greiðslur ætti að inna af hendi smátt og smátt, er með frumvarpinu lagt til að skýrt sé tekið fram hver sé staða krafna samkvæmt afleiðusamningum sem gerðir hafa verið samkvæmt lögum nr. 11/2008. Er því lagt til að bætt sé við 14. gr. laganna málslið þar sem tekið er af skarið um þetta. Samkvæmt þeirri reglu njóta kröfur samkvæmt afleiðusamningum sömu stöðu í skuldaröð og kröfur samkvæmt sértryggðu skuldabréfi.

Á fund viðskiptanefndar komu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins og Samtaka fjármálafyrirtækja ásamt fulltrúa viðskiptaráðuneytisins og töldu allir gestir nefndarinnar mjög mikilvægt að frumvarpið næði fram að ganga.

Undir nefndarálitið skrifa eftirtaldir þingmenn: Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Jón Bjarnason, Birgir Ármannsson, Ellert B. Schram, Jón Gunnarsson, Björk Guðjónsdóttir og Höskuldur Þórhallsson.

Hér er um lítils háttar breytingu að ræða á frekar nýlegum lögum sem ég vona að sé full samstaða um að fari með þeim hætti í gegn sem hér er lagt til. Það skiptir miklu máli að þessi lög virki vel, lög um sérvarin skuldabréf og ekki síst kannski í því ásandi sem núna ríkir á fjármálamarkaðnum. Ég vona að þingheimur sé sameinaður í því að gera þessi góðu lög enn betri.