135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[12:20]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir það frumvarp sem hann hefur lagt hér fram. Hér er um að ræða mikilvægt kjaramál fyrir öryrkja og líka réttindamál og varða miklu um lífsgæði öryrkja yfir höfuð. Þetta er enn eitt skrefið í því að uppfylla þau kosningaloforð sem stjórnarflokkarnir, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, gáfu þessum hópi í aðdraganda síðustu kosninga.

Með þessu frumvarpi er verið að draga verulega úr tekjutengingum sem hafa verið óhóflegar í garð öryrkja og hækka umtalsvert frítekjumarkið eða upp í 100 þús. kr. þannig að öryrkjar geta frá 1. júní haft 100 þús. kr. í atvinnutekjur án þess að það bitni á bótum. Þannig er verið að hvetja fólk til sjálfshjálpar sem er ekki bara mikilvægt vegna tekna öryrkja heldur líka til þess að bæta heilsufar og lífsgæði að öðru leyti. Það er ávinningur í sjálfu sér í því fyrir þá sem fást við heilsufarsvandamál eða örorku af einhverjum ástæðum að vera í starfi, að njóta þeirra lífsgæða sem felast í því að vera í vinnu.

Það hefur verið mjög til vansa hversu það hefur verið óhagstætt í mörgum tilfellum fyrir öryrkja að fara út á vinnumarkaðinn og bjarga sér sjálfir. Það er alveg ljóst að þegar við berum okkur saman við nágrannalöndin þá skortir verulega upp á að við höfum gert nægilega mikið í starfsendurhæfingu öryrkja og að hvetja öryrkja út á vinnumarkaðinn. Hér er um að ræða mjög mikilvægt skref í þá átt.

Ég hlakka til að sjá hvaða árangri þessar breytingar munu skila okkur á næstu missirum því að ég held að í sjálfu sér sé þessi aðgerð — þ.e. að létta tekjutengingunum af öryrkjum og skapa þeim forsendur til þess að sækja sér atvinnutekjur og fara í ríkari mæli út á vinnumarkað sér til sjálfshjálpar og aukinna lífsgæða — nái að langmestu leyti þeim markmiðum sem örorkumatsnefndin svokallaða setti sér. Ásamt því sem ákveðið var í síðustu kjarasamningum tel ég að þessi einfalda aðgerð geti að verulegu leyti náð því að auka virkni öryrkja á vinnumarkaði. Hún eflir einnig starfsendurhæfingu til langframa með ákaflega jákvæðum áhrifum á kjör, tekjur öryrkja og á heilsufarsleg og félagsleg lífsgæði sem felast í því að vera virkur á vinnumarkaðnum.