135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[12:38]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er lagt til að til bráðabirgða verði lögum um almannatryggingar breytt þannig að öryrkjar sem hafa einhverjar tekjur af atvinnu njóti þess á þann hátt að þær tekjur skerði ekki bæturnar sem þeir fá frá Tryggingastofnun ríkisins meðan þær eru undir 100 þús. kr. á mánuði. Það er fagnaðarefni að áformað er að bæta kjör þess hóps sem frumvarpið nær til því að það liggur nokkuð ljóst fyrir að sá hópur er afar tekjulágur og hefur ekki úr miklu að spila. Ég geri því ekki ráð fyrir að ágreiningur verði um það hér á Alþingi að grípa til þeirra aðgerða sem frumvarpið mælir fyrir um. Eins og fram kom í máli síðasta hv. ræðumanns eru margir fletir á þessu máli sem ástæða er til að draga fram í þessari umræðu og kannski ekki hvað síst í ljósi ræðu hæstv. félagsmálaráðherra hér á þingi í gær um lífeyrismál — ástæða er til að kalla eftir skýrari svörum um hvert ríkisstjórnin stefnir í þeim efnum.

Fyrst er það tillagan sjálf. Hún er til bráðabirgða vegna þess að ekki hefur tekist að koma fram með tillögur sem ætlunin var að lægju fyrir á þessum tíma, um framtíðarskipulag varðandi öryrkja. Ég vil taka undir óskir um að ráðherra geri grein fyrir því hvað valdi því að ekki hefur tekist að ganga frá tillögunum eins og til stóð. Er einhver ágreiningur uppi í málinu á milli ríkisstjórnarinnar og öryrkja um hvaða leið skuli fara? Mér finnst líklegast að það hljóti að vera það sem helst tefji fyrir að aðilar málsins séu ekki sammála um hvernig útfæra eigi þessa hluti. Ég kalla eftir hugmyndum ráðherra og ríkisstjórnar um þau efni og skýringum um áform eða vilja öryrkja þannig að við getum lagt mat á hvað hvor aðilinn vill í þessu efni. Ég held að það sé eðlilegt að þinginu sé gerð grein fyrir stöðu mála með þessum hætti eins og það stendur núna.

Ég vil aðeins staldra við ummæli hæstv. ráðherra um að stefnt verði — ja, kannski áður en ég vík frá þessu, ég á svolítið erfitt með að sjá fyrir mér hvað annað getur orðið, eftir að þessi útfærsla er orðin að lögum. Mér finnst vandséð hvernig hægt er að hafa hlutina með öðrum hætti þaðan í frá. Rætt hefur verið um að örorkubætur verði lagðar niður, allir verði á tímabundnum ákvörðunum um bætur eða lífeyri og kerfið leitist við að þjálfa einstaklingana til starfa sem þeir geti ráðið við þannig að einhver hvati sé til þess að ýta einstaklingunum út úr því fari sem þeir eru í og yfir í það að geta fundið sér viðfangsefni við hæfi, menntað sig til þeirra og annað slíkt. En þrátt fyrir að kerfinu yrði breytt eitthvað í þá veru — sem mér finnst vera áhugavert og er þekkt erlendis eins og t.d. í Svíþjóð — sé ég samt ekki hvernig útfærslan sem frumvarpið gerir ráð fyrir ætti að geta verið öðruvísi. Hvað annað ætti að geta skilað þessum einstaklingum því að þeir geti aflað sér tekna án þess að bætur skerðist? Mér þætti vænt um ef ráðherrann gæti þá útlistað hvaða hugmyndir eru uppi í þeim efnum þannig að maður átti sig betur á því hver valkosturinn gæti verið við þessa útfærslu.

Ráðherrann nefndi margt í gær í ræðu sinni, að það þyrfti að einfalda almannatryggingakerfið og samspil þess við lífeyriskerfið. Gott og vel, þróunin er sú í dag, og hefur verið á undanförnum árum, að draga úr tekjutengingum sem hvað mest var komið á fyrir hartnær 20 árum — ég hygg að hæstv. félagsmálaráðherra muni eftir því tímabili. Tiltölulega erfitt árferði var í ríkisfjármálum og halda þurfti aftur af útgjöldum, skulum við segja, fremur en að skerða þau til þessa málaflokks. Var þá gripið til þess að hafa mjög víðtækar tekjutengingar. Það var ekki rökstutt með því að lítið væri til af peningum, það var rökstutt með því að ekki væri eðlilegt að opinber sjóður væri að leggja fé til einstaklinga sem hefðu fjárgreiðslur frá öðrum aðilum sem dygðu þeim til framfærslu, annaðhvort með því að vinna sjálfir eða hafa öflugan lífeyrissjóð eða eitthvað slíkt. Það er rökstuðningur fyrir tekjutengingunni að dreifa fé ríkissjóðs eða almennings með þeim hætti að það fari þangað sem þörf er á en ekki þangað sem ekki er þörf á.

Í hópi þeirra sem fá lífeyristekjur í dag er vaxandi fjöldi sem fær mjög háar lífeyrisgreiðslur. Ef við drögum úr tekjutengingum og afnemum þær alveg — eins og við erum langt komin með að gera, a.m.k. gagnvart atvinnutekjum og einnig byrjuð á gagnvart lífeyristekjum — erum við í þeirri stöðu að ekki er litið til efnahags einstaklinga við ákvörðun bóta úr ríkissjóði eða frá Tryggingastofnun. Einstaklingur sem t.d. fær 600 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóði sínum fengi sömu bætur frá almannatryggingakerfinu og einstaklingur sem hefði bara brot af þeim tekjum úr lífeyrissjóði. Er það sanngjarnt? Er það jafnaðarstefna, svo að ég vitni til umræðunnar sem var fyrir nærri 20 árum? Menn sögðu þá að ekki væri sanngjarnt að sá sem hefur mikið fái háar fjárhæðir úr almannatryggingakerfinu, jafnvel jafnháa og sá sem hefur lítið. Það er eðlið að reyna að jafna tekjur manna með þessu kerfi fremur en að borga út úr því óháð efnahag þess sem fær fjármunina.

Ég spyr því hæstv. félagsmálaráðherra: Er það markmið hans og ríkisstjórnarinnar kannski að greiðslur úr almannatryggingakerfi renni til einstaklinga óháð efnahag þeirra, að það skipti engu máli hvernig þeir eru staddir, hvaða réttindi þeir eiga, að það sé sanngirnismál að engar tekjutengingar séu og því eigi allir að fá sömu fjárhæðir? Svo geti þær verið breytilegar eftir aðstæðum en þá eru það aðstæðurnar sem réttlæta það en ekki réttindi úr lífeyrissjóðum. Er það þetta sem að er stefnt og hæstv. félagsmálaráðherra átti við í gær þegar hún sagði að það væri óviðunandi að almannatryggingakerfið vinni gegn lífeyriskerfinu þannig að tekjur úr öðru skerði tekjur úr hinu? Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að það eigi algjörlega að skilja þarna á milli og engin tenging verði þannig að greiðslur úr almannatryggingakerfinu eigi að vera algjörlega óháðar lífeyrisréttindum einstaklinga. Er það svo, virðulegur forseti? Ég vil gjarnan að ráðherrann taki af allan vafa um að að því sé stefnt.

Þá spyr ég: Er það sanngjarn endir á málinu og hvernig hyggst ráðherra þá bregðast við og jafna mismunandi efnahag lífeyrisþega? Ég sé ekki nema eina lausn á því, sem út af fyrir sig er alveg fær leið við þessar aðstæður, og hún er sú að hafa mismunandi skattþrep, taka upp nýtt skattþrep þannig að þeir sem hafa meira samanlagt í tekjur borgi meiri skatt en hinir sem hafa minna. Þannig væri hægt að jafna að nokkru leyti til baka mismunandi efnahag einstaklinganna á þann veg að sá sem hefði mikinn lífeyrisrétt og fengi jafnháa fjárhæð úr almannatryggingakerfinu og hinn sem á lítinn lífeyrisrétt — að það mundi jafnast til baka með hærri skattgreiðslu. Mér finnst þetta fær leið og ég get alveg hugsað mér að hafa bótakerfi ríkisins með þessum hætti, t.d. varðandi barnabætur. Ég held að ég muni það rétt að á einhverjum tíma þegar ég skoðaði þetta var það þannig í Svíþjóð að barnabætur voru ákvarðaðar, fjárhæðin, óháð efnahag foreldranna og svo fólst jöfnunin í skattkerfinu sjálfu. Bæturnar voru reiknaðar inn í tekjur fjölskyldunnar eða einstaklinganna og menn borguðu síðan bara skatt af því og kom þá út jöfnun á hlutunum að lokum. Mér finnst í sjálfu sér að ef markmiðið er að aðskilja þessi kerfi verði hitt að fylgja, að jöfnun í gegnum skattkerfið verði að fylgja. Hún gerir það ekki eins og skattkerfið er nú, virðulegi forseti. Ætli hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnin að stefna í þessa átt er hugsanlegt að hægt sé að styðja ríkisstjórnina í því en þá þarf að fylgja með jöfnunarhlutverkið sem ég sé ekki að geti verið í öðru formi en hærra skattþrepi hvernig sem það er útfært, hvort það er sérstakt hátekjuskattþrep eða eitthvað slíkt. Það væri því fróðlegt ef hæstv. ráðherra vildi útskýra frekar þessi nýju pólitísku markmið um greiðslu bóta án efnahags viðtakanda.

Ég vil svo segja líka um almannatryggingabæturnar, og kannski óháð því sem ég var að tala um núna, en tengist því að einfalda kerfið, að mér finnst fyrirkomulagið eins og það er afar óeðlilegt. Það er verið að senda stærstum hluta lífeyrisþega bréf á hverju ári og krefja þá um endurgreiðslu á því sem þeir hafa fengið eða tilkynna þeim að þeir eigi eitthvað inni. Oftast eru þetta ekki háar fjárhæðir þannig að hægt er með tiltölulega einföldum hætti að fækka þessum afstemmingum. Ég held að langeinfaldasta leiðin sé sú að greiddar bætur verði endanlegar bætur. Það sem lífeyrisþegi hefur fengið hefur hann fengið og heldur. Hann eigi síðan á hverjum tíma, eftir því sem lög kveða á um, að gera grein fyrir stöðu sinni og berist nýjar upplýsingar getur stofnunin breytt greiðslum til hans í því ljósi frá og með þeim tíma. Þá er ekki verið að stemma af liðinn tíma, þá losnar stofnunin við það, og ég held að hæstv. ráðherra ætti að íhuga hvort ekki væri rétt að breyta útgreiðslunni með þessum hætti frá því að vera innágreiðsla á ársréttindi yfir í það að vera endanlegt uppgjör í hverri mánaðargreiðslu sem síðan sæti athugun og leiðréttingu til framtíðar litið en ekki aftur á bak nema um sviksamlega háttsemi sé að ræða, sem auðvitað kann að vera, en það eru allt önnur málefni, allt aðrar aðstæður en ég er að tala um.

Það fer ákaflega illa í lífeyrisþega að geta ekki treyst því að það sem þeir hafa fengið í bætur á hverjum tíma sé raunverulega í þeirra höndum og að þurfa að óttast um lengri eða skemmri tíma að fá bakreikning frá stofnuninni. Ég held að það væri mikið framfaraskref að geta losnað við þá framkvæmd mála, virðulegi forseti.