135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[13:32]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér mál sem snýr sérstaklega að öryrkjum, um flýtiaðgerð til að koma á sérstöku frítekjumarki fyrir öryrkja. Er ekkert nema gott um það að segja.

Stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili lagði sameiginlega fram tillögu um sérstaka sýn á lífeyrismál eldri borgara og öryrkja með það að markmiði að öllum væri tryggð lágmarksframfærsla og það var lagt sérstaklega upp með að horfa til þeirrar útfærslu. Stjórnarandstaðan lagði til að tekið yrði upp frítekjumark fyrir alla sem væru 67 ára og eldri og einnig fyrir öryrkja. Við lögðum einnig til að skoðað yrði sérstaklega hvernig útfæra mætti frítekjumark að því er varðar lífeyristekjur.

Ýmislegt hefur gengið í þá átt sem Samfylkingin, Vinstri grænir og Frjálslyndi flokkurinn lögðu til á síðasta kjörtímabili og voru með í kosningabaráttu sinni og sumt af þeim áhersluatriðum hefur verið að ganga eftir í tíð núverandi ríkisstjórnar. Því er kannski rétt að draga saman eða fara í örstuttu máli yfir það sem hefur verið gert og hvað hefur ekki verið gert og hvernig samspilið er í þessum málaflokki þegar við lítum yfir farinn veg og það ber auðvitað að þakka það sem vel hefur verið gert og þá áfanga sem hafa náðst.

Fyrsta sem gerðist eftir myndun núverandi ríkisstjórnar var að Sjálfstæðisflokkurinn náði fram því markmiði sínu að þeir sem væru eldri en 70 ára mættu hafa hvaða tekjur sem væri og fengju engar skerðingar í tryggingakerfinu, þ.e. þær mundu ekki valda skerðingu á neinum bótum í neinu tryggingakerfi sama hversu háar þær væru. Það var svolítið merkilegt að menn skyldu fara af stað í þessa vegferð en þetta var forgangsmálið. Síðan hefur ýmislegt gerst. En þarna er þó búið að leggja þá línu að það verði engin skerðing á almannatryggingabótum þeirra sem eru 70 ára og eldri hversu háar sem tekjur þeirra eru. Og í ljósi þess held ég að við þurfum að hugsa um það sem við erum að aðhafast núna og höfum aðhafst.

Þá var sett í lög að þeir sem eru 67–70 ára mættu hafa 100 þús. kr. í tekjur án þess að fá neinar skerðingar á bætur sínar. Það var algjörlega í samræmi við þá stefnumótun sem stjórnarandstaðan setti fram á síðasta kjörtímabili í sameiginlegu tillögum sínum, sem ég tel að hafi markað nokkuð merkileg þáttaskil í viðhorfi okkar til tryggingamála og væntanlega þeirrar framtíðar sem við viljum sjá.

Síðan hefur verið tekið á því að séreignarsparnaður sem er lífeyrissparnaður einstaklinga, einstaklingsbundinn sparnaður sem erfist til annarra, valdi ekki skerðingu á tryggingabótum. Það er búið að ganga frá því í löggjöf.

Einnig hefur verið gengið frá því stefnumarkmiði sem við vorum sammála um á síðasta kjörtímabili, stjórnarandstaðan, að aðskilja tekjur maka þannig að tekjur maka valdi ekki skerðingu á tekjum sambúðaraðila. Það er komið í gegn. Þá vantar samt enn, hæstv. forseti, einhvers konar frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur almennra lífeyrisþega. Það skref hefur ekki verið stigið nema hjá þeim sem eru 70 ára og eldri.

Við ræðum svo núna að tryggja skuli að allir þeir sem hafa minna en 25 þús. kr. lífeyrisréttindi í almennum lífeyrissjóði fái a.m.k. greiðslu sem því nemur úr lífeyrissjóði sínum og lagfæra þannig stöðu þeirra sem lakast eru settir í lífeyrissjóðum. En gallinn við þessa útfærslu er sá að það er ekkert frítekjumark á lífeyrissjóðstekjum úr almennum lífeyrissjóðum og því stendur sáralítill hluti eftir af þeim tekjum sem rauntekjur vegna þess að bæði skerða þær tryggingabæturnar og greiða þarf af þeim fullan skatt. Rauntekjurnar af þessum 25 þús. kr. mundu þar af leiðandi liggja á bilinu 8–10 þús. kr.

Þar sem við erum að setja sérstaka löggjöf núna, hálfgerða flýtilöggjöf til að koma öryrkjum inn í frítekjumarkið með hundrað þúsund krónurnar, það er búið að gera það vegna þeirra sem eru 67 ára og eldri og varðandi séreignarsparnaðinn og vegna tekna maka, en það stendur upp á okkur að ljúka við lagfæringu vegna almennra lífeyristekna og því spyr ég, hæstv. forseti, þar sem nú á að reyna að bæta þeim sem lakast eru settir í tryggingakerfinu með millifærslu í gegnum lífeyrissjóðina, hvort það væri þá ekki rétt að taka þannig á því að a.m.k. þessi 25 þús. kr. greiðsla úr lífeyrissjóði skerði ekki bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn treystu sér þó til í upphafi tillagna sinna meðan þeir voru saman í ríkisstjórn var að leggja til 25 þús. kr. frítekjumark en eingöngu fyrir atvinnutekjur.

Ég spyr hæstv. ráðherra, sem ég veit að er vel meinandi í tryggingamálum, hvort það væri ekki rétt þar sem við erum með bæði þessi mál undir, þ.e. flýtiaðgerðina fyrir öryrkja og það að enginn fái minna en 25 þús. kr. lágmark úr lífeyrissjóði og ríkið eigi að tryggja það, að stíga það skref að þær 25 þús. kr. skerði að minnsta kosti engar bætur. Ég held að við ættum að vera samkvæm sjálfum okkur og leggja það til núna við þessa lagfæringu og ég beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún tæki ekki undir slíka tillögu, kæmi hún fram í þinginu, að það skref væri stigið samhliða því sem við erum að gera hér með 100 þús. krónurnar. Þá værum við alla vega komin af stað með það að lífeyrissjóðstekjur skerði ekki sjálfkrafa tekjutryggingu eins og þær gera í dag og þarna væri alla vega einhver lágmarksupphæð. Þá erum við kannski líka komin af stað með það sem ég held að hæstv. ráðherra hafi boðað á fundi um lífeyrismál og haft var eftir henni í fjölmiðlum — ég vona að ég fari rétt með það, hæstv. ráðherra leiðréttir mig þá ef svo er ekki — að stefna eigi að því að lífeyriskerfin tvö, almannatryggingakerfið og lífeyriskerfið, virki ekki til skerðingar hvort á annað.

Ég hef alltaf skilið það svo að í framtíðinni mundum við horfa til þess, og ég tel að við höfum mótað þá tillögu saman stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili, að draga úr skerðingum lífeyrisgreiðslna á bótatekjur frá Tryggingastofnun og því spyr ég hvort ekki sé rétt að leggja í þá vegferð.

Ég get líka endurtekið spurningu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar: Hvað á hæstv. ráðherra við þegar hún segir að hún vilji aðskilja þessi kerfi? Er verið að tala um algeran aðskilnað eða er ætlunin að horfa til þess, sem var stefnumið okkar í stjórnarandstöðunni á síðasta kjörtímabili, að tryggja að allir hafi lágmarksframfærslu? Og beita skerðingarreglum og eins skattareglum þannig að tryggt sé að þeir sem búa við lægstar tekjur í þjóðfélaginu, þ.e. annars vegar tryggingabætur og hins vegar lægstu greiðslur úr lífeyrissjóði, hvort heldur það eru eldri borgarar eða öryrkjar, hefðu aldrei minna en að það dygði þeim til framfærslu sem er sennilega í dag eftir verðbreytingar, hækkun vöruverðs o.fl. komið upp undir 170–180 þús. kr. á mánuði?

Þetta er markmið sem ég lít alla vega til og taldi að við hefðum verið nokkuð sammála um á síðasta kjörtímabili, þáverandi stjórnarandstaða, og ég vænti þess að Samfylkingin sé enn þá ákveðin í að útfæra kerfið þannig að lágmarksrauntekjur fólks dugi til framfærslu. Ég er tilbúinn og minn flokkur til að taka þátt í því. Ég set hins vegar spurningarmerki við það, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði í ræðu sinni, hvort við getum stigið það skref í framtíðinni, og ég er ekkert viss um að það sé rétt ef við ætlum að reyna að tryggja lágmarksframfærsluna, að allar tekjur úr lífeyrissjóðum valdi ekki neinni skerðingu sama hversu háar þær eru. Ég held að það sé grundvallarspurning sem við verðum að spyrja okkur að þrátt fyrir að við höfum sett löggjöfina um 70 árin og við verðum að svara þeirri spurningu: Ætlum við að fara þá leið, þ.e. með 70 árin, að hvaða tekjur sem Íslendingur hefur hafi engin áhrif á skerðingar eða ætlum við að leitast við að tryggja lágmarksframfærslu allra og vera þá auðvitað með einhverjar skerðingar og einhverja röðun á því og horfa til þess að allir geti komist af? Það hlýtur að vera grunnmarkmiðið. Það er alla vega sú sýn sem ég hef haft á félagslegu réttlæti sem tryggingakerfið eigi að veita og ég veit ekki annað en að mikil samstaða sé um það í mínum flokki.

Þess vegna spyr ég að lokum, hæstv. forseti. Hvað á hæstv. ráðherra við þegar hún talar um að kerfin tvö skuli vera aðskilin? Lífeyriskerfið, tryggingakerfið, búið er að aðskilja séreignarsparnaðinn og þá stendur út af almenna lífeyrissjóðskerfið. Hvernig ætlum við að útfæra það? Auðvitað er það svo skattkerfið í lokin sem við verðum að horfa á því það rauntekjurnar í vasa fólksins eru það sem skiptir máli en ekki brúttótölur á blaði.