135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[14:16]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eina ár sem framsóknarmenn, stjórnuðu á tólf ára tímabili, sem lágmarkslífeyrir hélst í hendur við lágmarkslaun þá er það 100,3. Það sem sagt aðeins rétt skríður þarna yfir. Ef við tökum þessar 25 þús. kr. með, sem ég var að nefna, sem er uppbótarlífeyrir til þeirra sem ekkert hafa úr lífeyrissjóðum sem aldraðir munu fá en frumvarp um þær á eftir að koma hér inn í þingið, og eins og ég segi, tökum það bara niður í 15 þús. kr., þ.e. eftir skerðingu, þá erum við samt þegar við horfum á þetta sem hlutfall af lágmarkslaunum 101,2 á móti því sem Framsóknarflokkurinn gerði best sem er bara 100,3.

Ég spyr hv. þingmann: Ætlar hann að mótmæla því að þegar þeir sem lægst hafa úr almannatryggingakerfinu, þ.e. aldraðir sem lægst hafa úr almannatryggingakerfinu, eru búnir að fá þessar 25 þús. kr. sem verða 15 þús. kr. þegar það er búið að sæta skerðingum og fer þá 7 þús. kr. upp fyrir tekjutrygginguna, ætlar hann að halda því fram að þessir aðilar — af því að hann fullyrti hér að allir mundu verða undir dagvinnutryggingunni á lágmarkslaunum — ætlar hann að halda því fram að þegar þetta er komið fram þá muni þetta verða undir dagvinnutryggingunni? Auðvitað getur hv. þingmaður ekki haldið því fram vegna þess að það er rangt.

Síðan erum við að ná áfanga í málum lífeyrisþega. Ég held ég hafi sjaldan fengið eins marga pósta og símtöl frá lífeyrisþegum og 1. apríl þegar fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru að koma til framkvæmda eins og makatengingin og fleira, þar sem lífeyrisþegar voru mjög ánægðir með aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Auðvitað vilja lífeyrisþegar fá meira í sinn vasa. Ég get tekið undir það, virðulegi forseti. En við skulum bíða og sjá hvað setur. 1. júlí er eftir. Þá stígum við vonandi enn einn áfangann í viðbót til þess að bæta kjör lífeyrisþega. Síðan er það 1. nóvember þar sem við erum að fara inn í mikla (Forseti hringir.) endurskoðun á almannatryggingakerfinu sem örugglega á eftir að skila enn betri úrbótum til lífeyrisþega (Forseti hringir.) en við sjáum núna fyrir.