135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[14:47]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort menn heyrðu hvað það var sem hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahagsnefndar þingsins, sagði hér áðan fyrir hönd stjórnarmeirihlutans. Ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum ætla ég að endurtaka nokkur orð úr umsögn meiri hluta efnahags- og skattanefndar um frumvarpið.

Það er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands leggst gegn frumvarpinu og telur brýnna að reistar verði skorður við því að eigendur fjármagns komist hjá eðlilegri skattlagningu með flutningi þess úr landi. Sambandið gagnrýnir enn fremur tímasetningu á framlagningu frumvarpsins í ljósi núverandi aðstæðna í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hvað varðar þær breytingar sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar lagði til við 2. umr. frumvarpsins varar Alþýðusambandið sérstaklega við afnámi takmörkunar á heimild til að draga kostnað við öflun tekna sem undanþegnar eru skattskyldu frá öðrum tekjum.“

Áfram hélt hv. formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, Pétur H. Blöndal, með leyfi forseta:

„Bæði Viðskiptaráð og Kauphöll Íslands OMX fagna markmiðum frumvarpsins og telja að þær breytingar sem lagðar voru til við 2. umr. hafi verið til góðs.“

Ég ætla ekki að vitna meira. Þarna er vísað í tvö hagsmunaöfl í okkar samfélagi, annars vegar verkalýðshreyfinguna, sem leggst eindregið gegn frumvarpinu, og hins vegar heim fjármálafyrirtækja sem fagna því. Alþýðusambandið segir enn fremur að óráðlegt sé að koma með þetta frumvarp og þessar lagabreytingartillögur fram núna í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu.

Hæstv. forseti. Fyrir fáeinum dögum átti 3. umr. um frumvarpið að fara fram, ég hygg að það hafi verið sett á dagskrá á miðvikudag. Ég óskaði eftir því þá formlega, á fundi með formönnum þingflokka Alþingis og forseta þingsins, að það yrði tekið út af dagskrá. Það var orðið við þeirri beiðni. Það var ekki bara það að mér þætti frumvarpið slæmt heldur benti ég á að þetta væri — og kannski hefði verið betra að fá það þá fram — táknrænt að því leyti að síðar þennan sama dag var efnt til fundar í ráðherrabústaðnum með fulltrúum aðila á vinnumarkaði, verkalýðshreyfingar, Samtökum atvinnurekenda og Sambandi sveitarfélaga, en þennan fund sátu oddvitar ríkisstjórnarflokkanna auk hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra. Ég held að frumvarpið hefði ekkert verið sérstaklega gott innlegg í þann fund og hvet ég þá menn til að kynna sér umsögn Alþýðusambandsins sem leggst gegn – og ég endurtek, hæstv. forseti — sem leggst mjög eindregið gegn því að þetta frumvarp verði gert að lögum.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur sett fram breytingartillögur, sem ég er einnig flutningsmaður að, og mun hann hér á eftir gera grein fyrir breytingartillögum okkar. Ég mæli hins vegar fyrir framhaldsnefndaráliti frá minni hluta efnahags- og skattanefndar sem við stöndum að, hv. þm. Paul Nikolov og ég.

Í þessu framhaldsnefndaráliti er í upphafi vísað til þeirra sem komu á fund nefndarinnar við umfjöllun málsins en síðan segir, með leyfi forseta:

„Skattlagning á fyrirtæki og fjármagnstekjur á Íslandi er með því lægsta sem gerist innan OECD og er enn haldið áfram á þeirri braut að lækka skatta á þessa aðila. Þannig liggur fyrir þinginu tillaga um að lækka tekjuskatt fyrirtækja um þrjú prósentustig. Með þessu frumvarpi er lagt til að söluhagnaður lögaðila af hlutabréfum verði gerður skattfrjáls. Þegar frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir að frádráttur vegna kostnaðar við hlutabréfaviðskipti félli niður. Þessu breytti meiri hlutinn við 2. umr. Athygli vekur að farið var að óskum fjármálafyrirtækja í þessu efni en gengið gegn ábendingum og óskum verkalýðshreyfingarinnar. Minni hlutinn tekur undir sjónarmið ASÍ og telur að með frumvarpinu sé stigið skref í átt til takmarkalausrar skattasamkeppni þjóða sem ekki sér fyrir endann á. Þá er rétt að vekja sérstaka athygli á umsögn embættis ríkisskattstjóra um frumvarpið þar sem talað er um „stílbrot“ gagnvart meginreglu skattalaga.“

Áfram orðrétt, með leyfi forseta:

„Enn er rétt að vekja athygli á sjónarmiðum sem fram komu hjá Eyþingi og fleirum varðandi mikilvægi þess að taka tillit til byggðasjónarmiða við verkaskiptingu innan skattkerfisins. Minni hlutinn leggst gegn samþykkt frumvarpsins.“

Hér kemur einnig fram að hv. þm. Grétar Mar Jónsson hafi setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og að hann styðji þetta álit.

Í fylgigögnum sem fylgja framhaldsnefndarálitinu er að finna tvær umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands og einnig minnisblað frá ríkisskattstjóra. Að lokum er fjórða fylgigagnið, umsögn frá Eyþingi, Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.

Það skal tekið fram að á frumvarpinu voru gerðar breytingar frá því að það kom fyrst fram og mun ég víkja að þeim.

Ég ætla að byrja á því að vísa í umsögn Alþýðusambands Íslands, fyrri umsögnina sem barst 7. mars sl.

Þar er vísað í það að afloknum inngangsorðum að frumvarpið feli í sér tvíþætta tillögu að breytingum á skattlagningu aðila í atvinnurekstri.

Í fyrsta lagi séu lagðar til breytingar á reglum um skattskyldu söluhagnaðar lögaðila af hlutabréfum, og lögð er til tilfærsla á skattaumsýslu þeirra lögaðila sem mest umsvif hafa í íslenskum þjóðarbúskap til sérstakrar starfseiningar innan Reykjavíkurumdæmisins.

Það skal tekið fram að í umsögn Alþýðusambandsins er ekki tekin afstaða til síðari þáttarins, þ.e. breyttrar verkaskiptingar innan skattaumsýslunnar. Það eru vissulega ýmsar hliðar á því máli. Talað er um mikilvægi þess að til verði sérhæfð vinnueining sem geti sinnt því að sýsla með stórfyrirtæki og söluhagnað og annað af því taginu og bent á að þeirri starfsemi væri best borgið hér á höfuðborgarsvæðinu. Síðan voru önnur sjónarmið uppi um að við ættum að nota þetta tækifæri til að efla stjórnsýsluna á landsbyggðinni og það kemur m.a. fram í umsögn frá Eyþingi, Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, eins og áður er getið.

Innan raða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa verið mjög sterk sjónarmið í þá veru að við eigum að nota þetta tækifæri til að efla stjórnsýsluna á landsbyggðinni og geri ég ráð fyrir að það eigi eftir að koma fram betur hér við umræðuna.

Svo að ég haldi áfram með umsögn Alþýðusambandsins segir hér, með leyfi forseta, enn fremur:

„ASÍ leggst gegn þeirri breytingu sem lögð er til, að söluhagnaður lögaðila af hlutabréfum verði skattfrjáls en á móti falli frádráttur vegna kostnaðar við hlutabréfaviðskiptin niður.“

Þannig var það sem sagt upphaflega, þá átti þessi frádráttur vegna kostnaðar við hlutabréfaviðskiptin að falla niður, en þessu var síðan breytt á síðari stigum. Hvað er þá að gerast? Þá eru menn að leggja til að söluhagnaður lögaðila af hlutabréfum verði skattfrjáls og að vinnan við að afla þessara skattfrjálsu tekna verði einnig undanþegin skatti eða komi einnig til frádráttar, það er sem sagt verið að bæta í. Nú er ég ekki kominn lengra en að vitna í fyrri umsögn Alþýðusambandsins.

Hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að á undanförum árum hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á skattaumhverfi lögaðila hefur það ekki leitt til aukinnar fjárfestingar erlendra aðila hér á landi og heldur ekki dugað til að halda fé í landinu. Ástæðan er ekki sú að skattlagning lögaðila sé almennt ekki samkeppnisfær við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Tekjuskattar lögaðila eru með því lægsta sem þekkist meðal OECD landa og hlutfall tekna ríkissjóðs af tekjuskatti lögaðila einnig með því lægsta sem þekkist. Nýverið boðaði ríkisstjórnin að tekjuskattur lögaðila yrði lækkaður um 3 prósentustig eða um 16,7%. Þá er rétt að hafa í huga að skattur af fjármagnstekjum er einnig með því lægsta sem þekkist.“

Varðandi þau rök sem lesa má úr greinargerð frumvarpsins að líkur séu á að þessi skattur skili fremur litlum tekjum vegna þess að hægt sé að fresta skattlagningunni óendanlega og einnig að mörg íslensk félög hafa flutt eignarhald á hlutabréfum til landa sem ekki skattleggja söluhagnað, þá vega þau ekki þungt að mati ASÍ. Eðlilegra er að bregðast við með því að kanna með hvaða hætti hægt er að koma í veg fyrir slík skattundanskot. Í því samhengi má benda á þann vanda að bæði virðist hægt að komast hjá því að greiða eðlilegan skatt af söluhagnaði og einnig af hagnaði með því að færa fjármagn úr landi. Ástæðuna má án vafa rekja til þess að íslensk skattalög eru varnarlítil fyrir aðgerðum af þessum toga en Ísland er eitt fárra landa í vesturálfu sem ekki hefur leitt í lög nein ákvæði sem hindra eða takmarka flutning á hagnaði til annarra landa án eðlilegrar skattlagningar.

ASÍ leggst því eindregið gegn þeirri breytingu að söluhagnaður lögaðila af hlutabréfum verði undanþeginn skattskyldu.“

Þetta er úr álitsgerð Alþýðusambandsins frá 7. mars og ég ítreka að varðandi seinni þáttinn, þ.e. verkskiptingu innan skattstjórnsýslunnar, tekur Alþýðusambandið ekki afstöðu, það leggst ekki gegn þeim breytingum sem eru boðaðar með frumvarpinu.

Eftir að meiri hlutinn í efnahags- og skattanefnd þingsins hafði farið höndum um frumvarpið og bætt í að kröfu Kauphallarinnar og fjármálafyrirtækjanna, að gera vinnu við að afla tekna sem við erum að undanþiggja skattskyldu líka frádráttarbæra frá skatti, þá er ekkert undarlegt að Kauphöllin og fjármálafyrirtækin fagni þessum gjörðum ríkisstjórnarinnar og finnist hv. þm. Pétur H. Blöndal standa sig afburða vel í sínu starfi. Það er klappað úti um allan bæ í fjármálafyrirtækjunum fyrir hv. þm. Pétri H. Blöndal og hve hann sinni sínu hlutverki frábærlega vel. (Gripið fram í.)

En Samfylkingin, er það ekki flokkurinn sem kallaði sig Jafnaðarmannaflokk Íslands? Er það ekki flokkurinn sem hér fyrr á tíð vildi leggja rækt við tengsl sín við verkalýðshreyfinguna? Hvað segir hann í þessu máli, er hann sáttur við þetta? Er hann sáttur við að við samþykkjum á Alþingi lög sem ganga þvert á það sem verkalýðshreyfingin óskar eftir? (PHB: Hún hefur ekki löggjafarvald.) Nei, hún hefur ekki löggjafarvald, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. (Gripið fram í: En fjármálafyrirtækin?) En fjármálafyrirtækin? Það er ágæt ábending héðan úr þingsalnum að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns.

Auðvitað hafa þessir aðilar ekki löggjafarvald en á þinginu erum við 63 fulltrúar sem viljum leggja rækt við mismunandi sjónarmið, á því byggist okkar pólitík. Ég var að spyrja um pólitík, um stefnu Samfylkingarinnar vegna þess að hér er komið að kjarna máls. Fjármálafyrirtækin fagna en verkalýðshreyfingin er mjög andvíg þessum lagabreytingum.

Ég var kominn að því, hæstv. forseti, að vísa í seinni umsögn frá Alþýðusambandinu sem frá 23. apríl sl. eftir að meiri hlutinn hafði farið höndum um frumvarpið og bætt í skattundansláttinn að ósk fjármálafyrirtækja og Kauphallarinnar. Þá segir Alþýðusambandið, með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands hefur þegar sent inn umsögn um mál 325. Í meðförum þingsins hafa orðið veigamiklar breytingar á frumvarpinu og vill ASÍ koma á framfæri frekari athugasemdum.

ASÍ leggst gegn þeirri breytingu að gera söluhagnað af afleiðusamningum sem seldir eru á skipulegum verðbréfamörkuðum, þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf.

ASÍ leggst gegn þeirri breytingu sem gerð er á 2. gr. frumvarpsins að opna fyrir það að kostnaður við öflun tekna sem undanþegnar eru skattskyldu geti verið dregnar frá öðrum tekjum. Þessi breyting þýðir með öðrum orðum að kostnaður sem fellur til við að afla tekna sem undanþegnar eru skattskyldu getur komið til frádráttar öðrum tekjum og lækkað þar með aðrar skattgreiðslur viðkomandi. Ætla má að þetta sé gert til einföldunar þar sem upphaflegt ákvæði bauð upp á mjög flókna skattframkvæmd. ASÍ varar eindregið við þessari breytingu og því fordæmi sem hún skapar. Ef sú leið sem lögð er til í upphaflegu frumvarpi er ekki talin framkvæmanleg eru það enn frekari rök gegn því að umræddur hagnaður sé undanþeginn skattlagningu.

Frumvarpinu er ætlað að hafa áhrif á skattskyldu lögaðila þegar á yfirstandandi ári. Það er aldrei æskilegt að gera slíkar breytingar með afturvirkum hætti. Fyrir slíkum afturvirkum breytingum, ef þær á annað borð eru gerðar, þurfa að vera veigamikil rök. Engin slík rök er að finna í frumvarpinu eða greinargerð þess.

ASÍ leggst því eindregið gegn þeirri breytingu að söluhagnaður lögaðila af hlutabréfum og afleiðum verði undanþeginn skattskyldu.“

Undir þetta skrifar f.h. Alþýðusambands Íslands, Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur samtakanna.

Það eru fleiri fylgigögn með þessu frumvarpi eins og ég gat um áðan, þar á meðal frá ríkisskattstjóra sem í reynd er afar hógvært. Ég verð að segja að stjórnsýslan, bæði ráðuneyti og stofnanir á vegum hins opinbera eiga oft í erfiðleikum þegar þær eru að fjalla um mál sem eru framkvæmdarvaldinu hugleikin. Fjármálaráðuneytið og sérfræðingar þess fá það verkefni að tala fyrir þeim frumvörpum sem ráðuneytin unga út, færa fyrir þeim rök, færa hin pólitísku rök og réttlætingar ráðherranna inn í nefndarstarfið, en þá skortir oft á að við sem sinnum aðhaldshlutverki og komum að löggjöfinni fáum fullnægjandi og góðar upplýsingar. Reyndar höfum við yfirleitt fengið mjög góðar upplýsingar frá embætti ríkisskattstjóra og reyndar fleiri stofnunum. Engu að síður þurfti nánast að toga út með töngum að fá á blað greinargerðir um þessi mál sem hefðu að finna einhverja gagnrýni.

Hjá ríkisskattstjóra er starfandi mjög fært fólk og góðir sérfræðingar og ég held að við hljótum að taka alvarlega þegar þetta embætti talar um stílbrot frá almennri reglu skattalaga. Þá á Alþingi að leggja við hlustir. Ég spyr, hæstv. forseti: Í stað þess að samþykkja þessa löggjöf núna væri ekki ráð og væru það ekki hyggindi að láta málið bíða, að við bíðum með þetta mál a.m.k. fram á haustið til þess að skoða það betur? Væri ekki ráð að gera það?

Hvað stendur upp úr í þeim umsögnum sem okkur eru að berast? Í fyrsta lagi er bent á þá röksemd sem iðulega er teflt fram þegar skattar eru lækkaðir á fjármagn og fyrirtæki að þetta sé vakur skattstofn, eins og það er kallað, og ef skattlagt sé of hátt sé líklegt að hann leiti út fyrir landsteinana og inn í holur í kerfunum í umheimi okkar. Við þekkjum hvernig unnið hefur verið að því á vegum OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, að útrýma svokölluðum skattaparadísum sem grafa undan velferðarkerfum heimsins. Þangað flýja fyrirtæki og óprúttnir fjármálamenn til að komast hjá því að greiða til samfélaga sinna. Þetta er eitt. Engu að síður er skattlagning sumra ríkja á mörkum þess að vera siðleg að mínu pólitíska mati. Menn hafa t.d. vísað þar til Hollands, að fyrirtæki flýi til Hollands og jafnvel Noregs, að þar séu slíkar holur og hægt að komast hjá því að greiða eins mikla skatta og annars staðar. En er það þá markmið okkar að elta slíkt uppi? Eigum við ekki að taka þátt í viðleitni siðaðra þjóða til að hafa og efla samstarfið okkar í milli þannig að ekki verði grafið undan skattkerfunum sem eru þegar allt kemur til alls til þess smíðuð að fjármagna velferðarsamfélagið? Að í staðinn fyrir að láta hinn sjúka mann greiða þegar hann er orðinn veikur greiði hann heilbrigður í gegnum sína skatta? Hann greiðir fyrir börnin sín og annarra til að afla menntunar og spurningin er: Hvar innheimtum við skattana? Allir fagna því þegar þeir losna við skatta sjálfir. Það gefur augaleið, (Gripið fram í.) flestir gera það. Það gefur augaleið að þegar sköttum léttir af fyrirtækjum finnst þeim það ágætt og eins er það með flesta einstaklinga svo lengi sem þeir skoða málið þröngt. En þegar farið er að kanna málin í víðara samhengi og skoða hinar samfélagslegu afleiðingar kemur á daginn, eins og sagt var úti í sal, að fólk vill borga skatta. Það vill ekki bíða þangað til það verður veikt og borga þá við útidyrnar á Landspítalanum. Nei, það vill borga meðan það er heilbrigt og er í starfi og er aflögufært.

Þá kemur að því hvernig á að dreifa þessum skattbyrðum. Á að láta þá sem hafa mestu tekjurnar borga hlutfallslega mest eða á að láta þá sem hafa minnst borga? Hvaða leið velur ríkisstjórnin í þessum efnum? Getur það verið, hæstv. forseti, að fyrir utan hæstv. forseta, sem er hér af starfsskyldu, sé enginn þingmaður úr Jafnaðarmannaflokki Íslands viðstaddur umræðuna? Getur verið að það sé tilviljun? Eða getur verið að þeim finnist þetta óþægileg umræða? Getur verið að þeim finnist þetta frumvarp og þessi lagasmíð ríkisstjórnarinnar óþægilega mikið í anda fjármagnsins, fjármálafyrirtækjanna, að kröfu Kauphallarinnar? Því eitt er víst að frumvarpið og lagasmíðin gengur gegn vilja og óskum og kröfum verkalýðshreyfingarinnar, það gerir hún. (Gripið fram í.) Við skulum bara taka Alþýðusambandið eins og það kemur … (Gripið fram í.) Nei, nei, það er alveg rétt, en þetta eru hin almennu sjónarmið þar. Ég get alveg fullvissað hv. þm. Pétur H. Blöndal um það.

Annars vegar segja menn að í stað þess að búa til holur hjá okkur, og jafnvel til að laða aðra að sem eru þá að flýja sín samfélög, eigum við að stoppa upp í þessi göt. Og ég held að við höfum farið það rækilega út af sporinu á síðustu græðgisárum að það sé kominn tími til að endurskoða afstöðu okkar í öllum þessum málum. Ég man þá tíð, það er ekki svo ýkjalangt síðan, ætli það hafi ekki verið 1998 eða eitthvað svoleiðis, rétt eftir að bankarnir voru gefnir, að þá sagði bankastjóri Landsbankans, að ég held, sem var að réttlæta skattaparadís á Cayman Islands, að það væri skiljanlegt, ég held að ég muni þetta orðrétt, að menn vildu vera í skjóli með öll sín stærri mál. Það var í viðhafnarviðtali í Morgunblaðinu sem þetta kom fram.

Hver veitir skjólið núna? Það er ríkisstjórnin og verkstjóri hennar í skattamálum, ágætur hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann hefur gengið fram galvaskur í þessu máli og komið með breytingartillögur á frumvarpi fjármálaráðherra sem valda geysilegum fögnuði í Kauphöllinni og í fjármálafyrirtækjunum eins og kemur fram í álitsgerð meiri hlutans með þessu frumvarpi.

Ég spyr líka, af því að ég sé að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur óskað eftir að veita andsvar: Finnst honum ekkert óþægilegt þegar stjórnsýslan varar okkur við stílbroti? Finnst honum í lagi núna þegar ríkisstjórnin og meiri hlutinn gerir tilraun til að efna til þjóðarsáttar, samkomulags í samfélaginu, að koma fram með frumvarp sem gengur eins freklega gegn óskum og kröfum verkalýðshreyfingarinnar og þetta frumvarp gerir? Finnst honum það ekkert óþægilegt? Finnst honum það ekki vera neitt stílbrot? Það væri gaman að heyra hugleiðingar hv. þm. Péturs H. Blöndals um það efni.

Hæstv. forseti. Ég er kominn að lokum þess tíma sem ég hef hér við 3. umr. málsins. Það er svolítið óvenjulegt að mál sé kallað aftur til nefndar eftir 2. umr. máls en það var gert í þessu tilfelli að gefnu tilefni. Mótmælin og aðfinnslurnar sem á okkur dundu sem eigum sæti í efnahags- og viðskiptanefnd voru orðin slík að við töldum ekki annað fært en að kalla málið inn aftur. Mér var mjög ljúft að gera það vegna þess að ég hef alltaf verið á móti þessu frumvarpi og legg til og ítreka þær óskir mínar að við göngum ekki til atkvæða um málið heldur taki ríkisstjórnin, báðir flokkarnir í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur og ekki síður Samfylkingin, vegna þess að ég hef þá trú að hún vilji hlusta á sjónarmið frá verkalýðshreyfingunni, alla vega lætur hún svo í orði, og beiti áhrifum sínum til þess að frumvarpið verði ekki að lögum í vor. Ég held að það væri hyggilegt að fresta þessu máli og gefa okkur sumarið til að skoða það, gaumgæfa það. Það eru bæði skattatæknileg atriði sem þurfa skoðunar við og síðan þarf náttúrlega að taka alla pólitíkina sem þetta frumvarp byggir á til endurskoðunar og helst að henda henni á haugana.