135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:18]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú fyrst benda á að undir nefndarálitið rita sex hv. þingmenn og ég er ekki einn. Ég ræð ekki nefndinni einn eins og hv. þingmanni er vel kunnugt. Auk þess veit hv. þingmaður að ég dansa yfirleitt ekki að kröfu eins eða neins, hvorki Kauphallarinnar né er ég verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Þetta ætti hv. þingmaður að þekkja mjög vel úr samstarfstíð okkar hér á þinginu. (Gripið fram í.)

Það vill bara svo til að mín heimsmynd fer saman við heimsmynd margra í atvinnulífinu. Ég þekki atvinnulífið. Ég þekki þarfir þess og alveg sérstaklega núna þannig að það er ekkert skrýtið.

Mig langaði til að fara í gegnum þessa skattasamkeppni þjóða. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvaða stöðu hinn einfaldi borgari, hinn venjulegi launamaður, hefur gegn ofurvaldi ríkisins þegar kemur að sköttum? Við sjáum dæmi um það hversu varnarlaus borgarinn, launþeginn var gagnvart ríkisvaldinu frá Skandinavíu, frá Svíþjóð þar sem skattlagningin fór upp í 80–90% af tekjum. Af hverjum þúsund krónum sem aflað var til viðbótar.

Það er ekki þannig að allir peningar sem fara til ríkisvaldsins fari beint í velferðarkerfið. Það fer heilmikið í sóun og bruðl og í kostnað við rekstur á kerfinu einu og sér. Hv. þingmaður hefur margoft gagnrýnt það.

Ég tel því að þessi alþjóðlega samkeppni sé björg borgarans gegn ofurvaldi ríkisins. Það er mín heimssýn og ég er ánægður með hana því að hún hvetur okkur til að fara betur með peningana. Menn skattleggja skynsamlegar og gera velferðarkerfið skilvirkt en ég legg áherslu á að velferðarkerfið er líka mjög mikilvægt.