135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:24]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétri H. Blöndal verður tíðrætt um heimssýn sína. Ég verð nú að segja að ég er hræddur um að það sé pínulítil móða á hinum pólitísku gleraugum hv. þm. Péturs H. Blöndals þegar hann talar. Ég hefði haldið að hann mundi tala af meiri hógværð og varkárni um fjármála- og bankakerfið nú um stundir. Eftir að það var einkavætt þá hefur það stefnt okkur í mikla glæfraför. Við erum því miður orðin einhver skuldugasta þjóð heimsins, einhver skuldugasta þjóð heimsins. (Gripið fram í.) Það eru eignir á móti en við vitum ekki hvernig fer.

Við vonum að vel fari og hvetjum mörg hver til sáttar og samstöðu með þjóðinni um að koma hér á jafnvægi. Við höfum sett fram tillögur í því efni í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og talað fyrir slíkri stefnu almennt í samfélaginu. Ég mundi því fara svolítið varlega um ágæti fjármálastofnana sem hafa farið með okkur í þá glæfraför sem þessar stofnanir hafa haldið.

Við í mínum flokki og aðrir úr hinum félagslega ranni samfélagsins, höfum talað fyrir öðrum áherslum sem ég held að hefðu verið vænlegri til árangurs en það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur stefnt okkur inn í. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á í samræmi við þá heimssýn sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins básúnar hér að sé svo ágæt þá erum við að samþykkja frumvarp sem ívilnar þeim öflum í samfélaginu sem hafa mest umleikis, hafa bestu kjörin á sama tíma og stigið er á þá sem hafa minnstu kjörin.