135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:57]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru athyglisverð sjónarmið sem komu fram í máli hv. þingmanns. Mig langaði til að mæta a.m.k. einu eða tveimur þeirra í stuttu andsvari. Í fyrsta lagi var rædd sú hugmynd sem býr að baki því frumvarpi sem hér er til afgreiðslu að skattstofur geti sérhæft sig. Sú umræða fór fram í nefndinni að færa mætti verkefni á hvaða skattstofu sem er. Meðal annars var það rætt að sjávarútvegur gæti átt heima í Vestmannaeyjum, að landbúnaður gæti átt heima á Hvolsvelli o.s.frv. Það er enginn einstreymisloki í þessum efnum og að sjálfsögðu hljóta menn að skoða þau mál mjög vandlega.

Í annan stað langaði mig til að spyrja hv. þingmann vegna þess að ég skildi hann á þann veg, á sama hátt og ég skildi hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, að sú skattfrestun sem ákveðin var fyrir 10 árum hefði í raun og veru verið dálítið glannaleg og menn hafi misst tökin á henni. Jafnvel í skattframkvæmd hafi það gerst að þeir sem hugsanlega áttu að greiða skatt fengu að fresta honum. Því hafi bæði skattframkvæmdin og löggjöfin hugsanlega ekki verið í því standi sem hún átti að vera. Á þann hátt hafi skattskuldbindingar safnast upp innan fyrirtækja án þess að þær komi nokkurn tíma til greiðslu. Þá er eðlilegt að spurt sé, af því að hv. þingmaður fór hér mikinn um hvað hér væri að gerast, hvað leggur hv. þingmaður til? Leggur hann til að þessar skattfrestanir verði í raun og aflagðar með öllu og 600 milljarðar lagðir á fyrirtækin í því ástandi sem nú er í íslensku samfélagi og íslensku atvinnulífi? Er verið að leggja það til? Hvað er verið að leggja til? Er verið að leggja það til að farið verði með sum fyrirtæki sérstaklega ef þau flytja fjármagn úr landi eða eiga starfsemi annars staðar en á Íslandi? Hvað er verið að reyna að segja (Forseti hringir.) bara svo við óbreyttir þingmenn skiljum eða fáum einhvern botn í hvað hv. þingmaður er að fara.