135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:59]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að skattstofur geti sérhæft sig, sjávarútvegurinn verði í einu umdæmi, landbúnaður í öðru og eitthvað annað í því þriðja, er frumleg hugsun. Ég held að almennt séð eigi íbúar hvar sem þeir eru staddir í landinu og fyrirtæki hvar sem þau eru stödd í landinu rétt á að hafa þessa þjónustu sem næst sér. Það er hugsunin með því að hafa skattumdæmi í landinu og skrifstofur dreifðar í landinu. (LB: Það er engin breyting á því.) Það eru þá bara sérhæfðustu verkefni sem geta verið einhver rök fyrir að hafa á sérstökum stöðum en það er ekki þar með sagt að þau þurfi öll að fara til Reykjavíkur. Tilhneigingin sem við erum að sjá í skattinum, í tollinum og á fleiri sviðum er öll í þessa átt og það sem ég var að leyfa mér að vekja athygli á er að það er í orði kveðnu þvert á stefnu stjórnarflokkanna og ekki síst Samfylkingarinnar sem hún reynir greinilega ekki að standa við, meinar ekkert með eða gefur bara eftir sisvona þegar þar að kemur.

Hvað legg ég til? Í fyrsta lagi að fresta afgreiðslu þessa frumvarps. Í öðru lagi legg ég til við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að hann reyni einstöku sinnum þegar gagnrýnd er sú málafylgja sem hann stendur fyrir að verja hana en breyta ekki umræðunni yfir í það að það sem öllu máli skiptir sé hvað við leggjum til. Af hverju notaði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ekki eina sekúndu af andsvari sínu til að verja frumvarpið, útskýra að það væri réttlætanlegt? Nei, hann reyndi það ekki en spurði: Ætlið þið bara að gjaldfella þetta allt á einu bretti, 600 milljarða? Það hefur enginn talað um það, þó að maður velti því fyrir sér hvort frestunarákvæðin í samhengi við skattaréttinn að öðru leyti séu kannski að reynast göróttari en til stóð. Ég tek það skýrt fram að ég taldi á sínum tíma og hef talið enn að það sé að mörgu leyti eðlilegt að fyrirtæki hafi einhvern umþóttunartíma ef þau innleysa verðmæti vegna fjárfestinga hvort þau fjárfesti aftur. (Forseti hringir.) Í sjálfu sér er ég ekki andvígur skynsamlegum og innan hóflegra marka frestunarreglum af þessu tagi en það skiptir máli í hvaða samhengi þær eru og það skiptir máli hvort þær eru orðnar aðferð til að koma slíkum skattskyldum tekjum úr landi skattfrjálst.