135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:02]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski styttra á milli okkar en ég taldi í upphafi þegar hv. þingmaður flutti ræðu sína. Að sjálfsögðu hafa allir aðgang að skattstofum. Það er ekki verið að breyta því á nokkurn hátt. Skattumdæmin verða áfram til staðar. Allir einstaklingar hafa aðgang að skattstofum.

Sú hugsun sem við stöndum fyrir birtist í því frumvarpi sem liggur fyrir. Í reynd er hér verið að losa um að nokkru leyti misheppnaða skattalöggjöf sem bæði í framkvæmd og löggjöf sem ekki hefur að öllu leyti gengið eftir.

Það er líka rétt hjá hv. þingmanni, og það leiðir af eðli máls að þessi leið er farin, að hún er vissulega liður í því að styrkja fyrirtækin. Ég held að það sé skynsamleg aðgerð í því árferði sem við búum við og við höfum hér á þinginu heyrt ítarlegar óskir og hvatningu frá stjórnarandstöðunni til þess að koma til móts við það ástand sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.

Hér er ekki um að ræða stórt skref en það má segja sem svo að hér sé annars vegar um það að ræða að verið er að losa um og lagfæra að mörgu leyti misheppnaða tíu ára gamla löggjöf. Einnig er verið að koma til móts við fyrirtæki í því ástandi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Að öðru leyti stendur hugsunin og hugmyndin sem lögð er fram fyrir sér sjálf í því frumvarpi sem hér liggur fyrir.