135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:04]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er feginn því að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson reynir ekki að ræða það frekar sem hverjum manni er ljóst og stendur hér í texta að með þessu frumvarpi er verið að færa störf af landsbyggðinni til Reykjavíkur með lögum. Skýrara getur það ekki verið, það er ekkert hægt að snúa upp á slíkt. Einhverjar yfirlýsingar eru um að hægt væri að gera eitthvað annað, að færa störf í hina áttina. Jú, jú, við höfum svo sem heyrt slíkt áður.

En hér er verið að leggja til í frumvarpi frá ríkisstjórninni að færa störf af landsbyggðinni til Reykjavíkur með lögum innan skattkerfisins. Það er endi þess máls. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Það er þannig. Það er auðvitað augljóst mál að einhver störf tengjast umsýslu um skattamál stærstu fyrirtækjanna á landsbyggðinni sem með þessu færast hingað.

Varðandi efni frumvarpsins að öðru leyti þá finnst mér nú hv. þingmaður eiginlega reyna að koma sér hjá að ræða hið stóra í því, þessa stóru sumargjöf ríkisstjórnarinnar til gróðafyrirtækjanna eins og á undanförnum árum með að því að reyna að færa það inn í erfiðleikana í íslensku efnahagslífi í augnablikinu. Farið er að líta á þetta sem einhverja meðgjöf, stuðning eða hjálp við fyrirtækin í núverandi ástandi.

Ætli það sé þá ekki eðlilegra að horfa til afkomu þeirra á meðan þessar tekjur og hagnaður mynduðust og velta fyrir sér hvort fyrirtækin skuldi ekki ríkinu talsvert af sköttum ef þau ætla ekki og hafa ekki fjárfest aftur fyrir þann hagnað og tekjur sem þau höfðu?

Er þá niðurstaðan af stóriðju og útrásarveisluhöldum undanfarinna ára að á sama tíma gátu fyrirtækin komist hjá sköttum af svona stórum fjárhæðum? Og nú á að gefa þeim það eftir. Nú er örlæti ríkisstjórnarinnar og Samfylkingarinnar slíkt. Jafnaðarmannaflokkur Íslands ætlar að færa þessa rausnarlegu sumargjöf til auðmanna landsins. Það er von að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sé svolítið (Forseti hringir.) kindarlegur þegar þetta efni málsins er rætt.