135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:06]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu afar þýðingarmikill málaflokkur, skattamálin. Hægt er að nálgast frá mörgum hliðum það mál sem hér er til 3. umr.

Ég vil fyrst segja vegna orða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, formanns þingflokks Samfylkingarinnar, hér áðan um að frumvarpið væri liður í að koma til móts við atvinnulífið í erfiðu árferði, að þær skýringar eru eftiráskýringar og innantómar í raun og veru.

Má þá minna á að það eru örfáir sólarhringar síðan ríkisstjórnin átti samráðsfund í ráðherrabústaðnum með aðilum vinnumarkaðarins, sveitarfélögunum, verkalýðshreyfingunni og atvinnulífinu til þess að fjalla um stöðuna í efnahagsmálum. Á þeim fundi kom ekkert fram, engar tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum. Svo kemur hv. þingmaður hér og segir núna eftir á að þetta frumvarp sé liður í því. Það stenst enga skoðun, herra forseti, og er eingöngu sett fram í þeim tilgangi að reyna að friða eigin samvisku því að hún hlýtur að vera slæm í röðum samfylkingarmanna. Samfylkingin hlýtur að vera með óbragð í munninum ef eitthvað er eftir af jafnaðarmennskunni sem þeir státa af á tyllidögum, að minnsta kosti í nafni sínu.

Það kom líka fram í máli hv. framsögumanns nefndarinnar Péturs H. Blöndals að þetta frumvarp væri algjörlega í anda heimssýnar hans. Það veit allur þingheimur. Raunar veit þjóðin öll hver heimssýn Péturs H. Blöndals er þegar kemur að skattamálum, þegar kemur að jöfnuði o.s.frv. (Gripið fram í.)

Og það er kompásinn sem Samfylkingin, hv. þm. Árni Páll Árnason og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, ætla að hafa í þessu máli. Það er kompásinn frá hv. þm. Pétri H. Blöndal.

Sannleikurinn er auðvitað sá að skattar eru mikilvægir sérhverju samfélagi. Til hvers? Til þess að standa undir sameiginlegri neyslu okkar og sameiginlegum þörfum. Það er geysilega mikilvægt að skattar séu sem fjölbreyttastir, að skattaundirlagið sé breitt. Af hverju er það mikilvægt? Það segir sig sjálft að eftir því sem skattaundirlagið er breiðara, þeim mun hófsamari getur skattlagningin á hvern einstakan skattstofn verið. Þess vegna er það mikilvægt.

Hér er verið að fara í öndverða átt. Hér er í raun og veru verið að fara í þá átt að fækka skattstofnum. Það þýðir einfaldlega að meiri byrðar lenda á þeim sem eftir sitja. Væntanlega er það allur almenningur í landinu.

Tímasetning sem ríkisstjórnin velur fyrir þessar aðgerðir hlýtur líka að vekja athygli. Ríkisstjórnin hefur boðað og flutt tillögu um að lækka tekjuskatt lögaðila. Ef ég man rétt þá er talað um í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar, sem ég verð nú að viðurkenna að ég hef nú ekki alveg á hraðbergi, að lækka tekjuskatt á almenning. Það bólar ekki á neinum tillögum um það.

Það má raunar halda því fram að við þær aðstæður sem eru að skapast núna í efnahagslífinu séu skattalækkanir óskynsamlegar frá hagstjórnarlegu sjónarmiði, afskaplega óskynsamlegar almennt séð. Það breytir ekki því að það getur verið fullt tilefni til þess að flytja til skattbyrðina innan kerfisins.

En hverjir eru það þá sem ættu helst að njóta þess? Eru það þeir sem lagt er til með þessu frumvarpi hér, sem sagt fyrst og fremst stórfyrirtækin sem fá niðurfellingu á skattlagningu söluhagnaðar hlutabréfa með þessu frumvarpi? Eru það stórfyrirtækin sem helst þurfa á því að halda?

Það kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar hér áðan að tekjutap ríkisins yrði allt að 60 milljörðum kr. Ég verð að segja alveg eins og er að þær upphæðir koma mér verulega mikið á óvart. Þær hafa ekki verið hraktar hér til að mynda, (PHB: Þær verða hraktar.) ekki af hv. formanni efnahags- og skattanefndar. Ekkert í þá veru kemur fram í frumvarpinu sjálfu þ.e. í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins. (Gripið fram í.) Í raun og veru kemur ekkert fram þar um áhrifin á ríkissjóð sem er undarlegt. (PHB: Kemur fram í greinargerðinni.) Það kemur ekki fram í kostnaðarmatinu. Kostnaðarmatið ætti að sjálfsögðu að segja til um það hver áhrifin verða. (Gripið fram í.)

Sannleikurinn er auðvitað sá að við horfum fram á það væntanlega á þessu ári að ríkissjóður verður af verulegum tekjum miðað við það sem lagt er upp með í fjárlögum ársins 2008 vegna samdráttar í efnahagslífinu, verulegum tekjum. Þar er áreiðanlega um að ræða milljarðatugi.

Kann að vera að hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, skrifi hér undir framhaldsálit meiri hlutans með fyrirvara af þessum sökum? Eða hver er fyrirvarinn sem hv. þm. Samfylkingarinnar Gunnar Svavarsson gerir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar? Hann kemur ekki fram í nefndaráliti. Hann hefur ekki komið fram hér í umræðu. Það væri fróðlegt að heyra frá hv. þm. Gunnari Svavarssyni af hverju hann setur fyrirvara.

Mig rennir grun í að það kunni m.a. að vera vegna fjárhagslegra áhrifa á ríkissjóð en kannski kann það líka að vera að hann, gamli jafnaðarmaðurinn úr Hafnarfirði, hafi vissar pólitískar efasemdir um þá leið sem hér er verið að fara.

Ég vil líka vekja athygli á því að í framhaldsnefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar er vísað í umsögn Alþýðusambands Íslands þar sem því er lýst að Alþýðusambandið leggist gegn frumvarpinu og telji brýnna að reistar verði skorður við því að eigendur fjármagns komist hjá eðlilegri skattlagningu með flutningi þess úr landi. Síðan segir hér áfram, með leyfi forseta:

„Sambandið gagnrýnir enn fremur tímasetningu á framlagningu frumvarpsins í ljósi núverandi aðstæðna í efnahagsmálum þjóðarinnar.“

Meiri hlutinn svarar í engu þessum athugasemdum Alþýðusambands Íslands. Ekki með einu orði er þessum athugasemdum svarað. Það vekur satt að segja furðu að Samfylkingin skuli taka þátt í þessum leik, að ganga veg Sjálfstæðisflokksins í átt að meira ójafnrétti og ójafnræði í samfélaginu.

Það er gríðarlega mikilvægt að allir aðilar í samfélaginu leggi sitt af mörkum til samfélagsþjónustunnar. Það er mjög þýðingarmikið og það á ekki að taka einn aðila út úr eins og hér er gert með þessu frumvarpi og segja að hann sé stikkfrír. Hvaða skilaboð eru fólgin í því til alls almennings í landinu? Hvað er Samfylkingin í raun og veru að hugsa?

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði hér áðan að líklega væri með þessu frumvarpi verið að færa þeim sem fengu ríkisbankana fyrir slikk, jafnmikla fjármuni ef ekki meiri en þeir greiddu fyrir bankana á sínum tíma. Ég man ekki betur en að Samfylkingin og formaður hennar hafi gagnrýnt það á sínum tíma m.a. í frægum Borgarnesræðum, fyrstu, annarri eða þriðju, og jafnframt gagnrýnt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn stóð að því.

En nú er verið að fara þessa sömu leið. Samfylkingin virðist hér algjörlega snúa við blaðinu. Ég held að Samfylkingin átti sig ekki á því hvað verið er að fara. Það getur varla verið. (Gripið fram í.) Já, það er sko gott og betra en ekkert á þessum síðustu og verstu tímum.

Eða hvað segir Samfylkingin við umsögn Alþýðusambands Íslands þar sem Alþýðusambandið leggst gegn þeirri breytingu sem lögð er til? Hér segir svo áfram í umsögn Alþýðusambandsins, með leyfi forseta:

„Varðandi þau rök sem lesa má úr greinargerð frumvarpsins að líkur séu á að þessi skattur skili fremur litlum tekjum vegna þess að hægt sé að fresta skattlagningunni óendanlega og einnig að mörg íslensk félög hafa flutt eignarhald og hluta til landa sem ekki skattleggja söluhagnað þá vega þau ekki þungt að mati ASÍ. Eðlilegra er að bregðast við með því að kanna með hvaða hætti er hægt að koma í veg fyrir slík skattaundanskot.“

Það eru skattaundanskot sem Samfylkingin ætlar að samþykkja.

„Í því samhengi má benda á þann vanda að bæði virðist vera hægt að komast hjá því að greiða eðlilegan skatt af söluhagnaði og einnig af hagnaði með því að færa fjármagn úr landi.“

Í framhaldsumsögn Alþýðusambandsins, viðbótarumsögn sem kemur eftir breytingartillögurnar frá nefndinni leggst Alþýðusambandið einnig gegn þeirri breytingu að gera söluhagnað af afleiðusamningum sem seldir eru á skipulegum verðbréfamörkuðum.

Og hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

„ASÍ varar eindregið við þessari breytingu og því fordæmi sem hún skapar. Ef sú leið sem lögð er til í upphaflegu frumvarpi er ekki talin framkvæmanleg eru það enn frekari rök gegn því að umræddur hagnaður sé undanþeginn skattlagningu.“

Þetta segir Alþýðusamband Íslands.

Nú kom reyndar hæstv. forsætisráðherra hér í dag eða gær og minnti þingheim á það sem einhvern tímann hafði verið sagt að Alþýðusamband Íslands væri engin heilög kirkja. Og kannski er það mottóið hjá Samfylkingunni líka nú orðið eftir að hún komst í ríkisstjórn, að taka ekki mark á þessari fjöldahreyfingu, þessum stóru heildarsamtökum launafólks í landinu.

Þess vegna segi ég það enn og aftur: Ég trúi því varla að Samfylkingunni sé sjálfrátt að hún ætli að standa að þessu máli. Ég tek undir með þeim sem hafa hér sagt: Takið þið þetta frumvarp til baka. Látið það ekki ganga til atkvæðagreiðslu. Farið betur yfir málið í sumar með þeim hagsmunaaðilum sem hér hafa varað við þessu máli. Hér hefur Alþýðusambandið verið nefnt og ýmsir ræðumenn hafa komið inn á umsögn ríkisskattstjóra sem er auðvitað alveg sérstakt umfjöllunarefni í raun og veru.

Það getur ekki verið að svo mikið liggi á að afhenda stórfyrirtækjunum þessa sumargjöf, sem hér hefur verið kölluð svo, að menn setjist ekki yfir málið og hugleiði það betur. Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru að skapast varðandi efnahagsástandið í þjóðfélaginu þá er þetta ekkert annað en blaut tuska framan í almenning í landinu, ekkert annað en blaut tuska.

Skilaboðin sem í þessu felast — jafnvel þótt það væri rétt sem sagt er að áhrifin á tekjur ríkissjóðs séu lítil, það er að vísu umdeilt eins og hér hefur komið fram í umræðum nú þegar — en jafnvel þótt svo væri þá eru skilaboðin til samfélagsins svo skelfileg að það tekur engu tali. Ríkisstjórnin á auðvitað að sjá sóma sinn í því að skilja það og skynja. Þetta er ekki leið sem leitt getur til þjóðarsáttar í samfélaginu, með engu móti.

Ef ríkisstjórnin meinar eitthvað með því að hún vilji þjóðarsátt, að hún vilji ná samstöðu við sem allra flesta, að ekki sé talað um aðila vinnumarkaðarins og launþegahreyfinguna, þá getur hún ekki farið með málið í atkvæðagreiðslu.

Má nú aftur minna á að kjarasamningar við opinbera starfsmenn eru í farvatninu. Kjarasamningar við Alþýðusambandið eru í uppnámi, það sjá allir og vita og þá kemur þetta innlegg af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Manni blöskrar að flokkur sem kallar sig jafnaðarflokk — jafnvel þótt það sé ylur í hlýjunni í stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og það kunni að vera þægilegt að vera þar þá hlýtur jafnaðarmannaflokkur að hafa einhvern snefil af sjálfsvirðingu enn þá. Hann hlýtur þá að hugsa og taka mark og mið af því sem launafólkið í landinu segir. Það getur ekki verið að það sé kompásinn á Pétri H. Blöndal sem ræður ferðinni.

Þess vegna skora ég, virðulegi forseti, enn og aftur á ríkisstjórnina og einkum og sér í lagi á Samfylkinguna sem ég hef sjálfur mikla og góða reynslu af samstarfi við. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Nei, ég hef aldrei verið í Samfylkingunni, virðulegi þingmaður. Ég skora á Samfylkinguna (Forseti hringir.) að sjá til þess að þetta mál gangi ekki til atkvæðagreiðslu.