135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:21]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði að það kæmi ekki fram í kostnaðarmati Fjármálaeftirlitsins hvað þetta frumvarp kostaði. Það er vegna þess að það fjallar um tekjur. Kostnaðarmatið fjallar nefnilega um kostnað og má kannski segja að það ætti kannski að víkka út kostnaðarmatið og að það fjalli líka um tapaðar tekjur.

En það kemur fram í frumvarpinu á síðu 5 eins og það var lagt fram upphaflega, ekki núna heldur eins og það var lagt fram upphaflega, með leyfi frú forseta:

„Álagður tekjuskattur lögaðila nam 42,7 milljörðum króna á þessu ári vegna reksturs ársins 2006. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hver sé hluti hagnaðar af sölu hlutabréfa í þeirri fjárhæð. Lausleg athugun sýnir að sá hluti sé hverfandi þar sem fyrirtæki nýti sér í afar ríkum mæli þá frestunarheimild sem til staðar er í gildandi lögum. Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um árlega fjárhæð frestaðs hagnaðar lögaðila vegna sölu af hlutabréfum á undanförnum árum, en sú fjárhæð hefur farið stigvaxandi, sbr. eftirfarandi tölur, sem unnar eru upp úr skattframtölum lögaðila.“

Þar kemur fram, á bls. 6, að árið 2006 hafi 336 milljörðum verið frestað. Síðan segir hér að þegar á heildina sé litið sé þó talið að áhrif þessara breytinga sem að framan greinir, þ.e. að fella niður skattana, verði hverfandi á tekjuhlið ríkissjóðs.

Þannig að þetta er fugl í skógi en ekki í hendi sem menn eru að tala um. Og það að reikna 18% af 336 og fara að bóka það inn í ríkissjóð er bara ekki til í dæminu. Það er svona svipað eins og farið væri að reikna með því að allur þorskur í sjónum væri kominn á land. Menn væru búnir að veiða hann. Hann er sko úti í sjó.