135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:24]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi kostnaðarmatið þá finnst mér það hártogun að tala um að kostnaðarmatið eigi bara að fjalla um útgjöld. Kostnaðarmat á auðvitað að fjalla um áhrifin á ríkissjóð og áhrifin á ríkissjóð eru ekki bara útgjaldaauki heldur getur breyting á tekjum, m.a. tekjutap, haft áhrif á ríkissjóð sem á auðvitað að gera grein fyrir í kostnaðarmati.

Varðandi það sem hins vegar kemur hér réttilega fram hjá hv. þingmanni þá segir að lausleg athugun sýni að þessir hlutir séu hverfandi. Ég verð að segja að ég geri meiri kröfu en svo að það sé hægt að koma hér inn með svona stórt mál og segja að lausleg athugun sýni þetta og hitt.

Það hefur verið vikið að því í þingræðum, m.a. hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, sem er nú afskaplega töluglöggur maður eins og þingheimur veit, að hér sé um verulega fjármuni að ræða. Ég tek fullt mark á því og a.m.k. tel ég fulla ástæðu til þess að fara rækilega í saumana á því hvort það kunni að vera rétt sem þar kemur fram, hvort þessi áhrif séu með þeim hætti sem þingmaðurinn sagði í þingræðu sinni.

Mér finnst það undarlegt að menn skuli að minnsta kosti ekki vilja leita af sér allan vafa ef svo má segja og það finnst mér ekki hafa komið fram í þessu máli.