135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:30]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Markmiðið með þessum breytingum er einfalt, þ.e. að reyna að komast í þá peninga sem við vitum að fyrirtæki eru að gefa upp í öðrum löndum vegna þess að fyrirtæki eiga valið um að fara á milli landa. Það er víðþekkt vandamál að skattbyrðar leggjast í auknum mæli á launþega og í minna mæli á fyrirtæki sem eru kvik. Það er alþjóðlegt vandamál. Við leysum það hins vegar varla með höftum eða banni á fjármagnsflutninga eða með öðrum slíkum aðgerðum. Mér finnst skorta í þessu máli sem og iðulega áður í málflutningi hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs raunhæf úrræði til að bregðast við þessari þróun, önnur en einfaldlega að tala undan og ofan af einhvers konar höftum og bönnum sem ljóst er að geta ekki náð tilgangi sínum.