135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:32]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna yfirlýsingu hv. þingmanns og viðurkenningu á því sem ég var nákvæmlega að segja áðan, að skattbyrðin færi í auknum mæli yfir á herðar almennings og af fyrirtækjunum. Ég er að segja að ég vara við þeirri þróun vegna þess að það er mjög mikilvægt til að standa undir samneyslunni að skattstofnarnir séu breiðir, þeir séu margir og þeir séu breiðir, það leggi allir eitthvað af mörkum og það á að vinna gegn öllum tilraunum til þess að fækka þessu frekar en að segja: „Ja, nú er þetta bara svona. Við ráðum ekki við það og við ætlum bara að gefast upp gagnvart þessu.“ Þess vegna höfum við verið að segja núna, sérstaklega á þessum tímum þegar við erum að reyna að ná og skapa, ríkisstjórnin, einhverja þjóðarsátt og samstöðu með meðal annars verkalýðshreyfingunni sem algerlega leggst gegn þessu frumvarpi, þ.e. þá væri nær að við segðum: „Gott og vel, tökum okkur tíma. Látum þetta mál ekki klárast í vor, förum yfir það í sumar og athugum hvort (Forseti hringir.) hægt sé að finna leiðir og lausnir sem allir geta vel við unað.“