135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[17:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég innti eftir því hér áðan hvað liði því að hv. þm. Gunnar Svavarsson kæmi og gerði grein fyrir fyrirvara sínum við þetta mál, formaður fjárlaganefndar og stjórnarþingmaður sem stendur að málinu. Hann ritaði undir nefndarálitið með fyrirvara en hefur ekki útskýrt það eða rökstutt hér í umræðunum. Ég óskaði eftir því að honum yrði gert viðvart og þess gæfist kostur að hann næði til umræðunnar og gæti upplýst okkur um þann þátt málsins áður en umræðu lyki, henni yrði þá frekar frestað en að klára hana.

Ég vil einnig inna virðulegan forseta eftir því hvað til standi að halda hér lengi fram fundi í dag. Nú er hvítasunnuhelgi fram undan og almennt talað hefur verið stefnt að því að fundir á fimmtudögum stæðu ekki langt fram eftir degi, alla vega ekki langt fram á kvöldið þegar svo stendur á að fram undan er helgi þar sem margir fara til síns heima, út í sín kjördæmi o.s.frv.

Mér er að vísu ljóst að samþykkt (Forseti hringir.) voru afbrigði við reglubundinn fundartíma í morgun en það þýðir ekki endilega að halda þurfi fund langt fram á kvöld. Mér þætti því fróðlegt (Forseti hringir.) að virðulegur forseti svaraði til um þessi tvö atriði.