135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[17:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er nú að togna svolítið á hinum háleitu markmiðum um skipulegan og reglulegan fundartíma í anda hinna nýju þingskapa, finnst manni, og gerist æ oftar að brugðið er til afbrigða í þeim efnum. Þau fyrirheit eru nú svolítið að fara út um dal og hól hjá forustu þingsins sem uppi voru höfð og um höfð fögur orð hér í byrjun.

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir, þar sem ég er hér í minni annarri ræðu, að ég hafi hér tíu mínútna ræðutíma. Er það ekki rétt athugað?

Ég vil í fyrsta lagi gera athugasemdir við það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði að umtalsefni.

(Forseti (ÁRJ): Hv þingmaður hefur fimm mínútur í síðari ræðu samkvæmt þingsköpum.)

Er þetta ekki önnur ræða af mörgum mögulegum fyrir 3. umr. frumvarps, frú forseti?

(Forseti (ÁRJ): Þetta er önnur ræða og þetta er rétt hjá hv. þingmanni.)

Já, ég hef grun um það. Ég hélt nú að aðrir ættu að kunna þessi nýju þingsköp betur en ég. En svo er greinilega ekki, ég verð þá að leyfa mér að leiðrétta þetta hjá hæstv. forseta. En það skiptir nú ekki öllu máli. Ef klukkan verður bara stillt upp á nýtt þá er ég hæstánægður.

(Forseti (ÁRJ): Forseti verður að leiðrétta hv. þingmann. Samkvæmt nýjum þingsköpum er ræðutími í 3. umr. sá sami og í 1. umr. og þá er ræðan í annað sinn fimm mínútur. Þetta var rétt hjá forseta.)

Það er naumt skammtað, verður að segja, fimm mínútur til þess að ræða þessi mál. En kannski ég fengi þá þær fimm mínútur ef þessi orðaskipti yrðu dregin frá.

Frú forseti. Ég ætla þá að reyna að þjappa máli mínu saman og hafa þetta stuttar athugasemdir. Í fyrsta lagi er það afar sérkennilegt innlegg í þessa umræðu, sem kom frá hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni, að hér sé um hluta af efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar að ræða. Það er þá í raun og veru það fyrsta af slíku tagi sem lítur dagsins ljós. Og það er afar athyglisvert hvað það er. Það er í raun og veru afturvirk skattaaflétting af þegar tilföllnum skattskyldum hagnaði fyrirtækja á veltiárunum að undanförnu. Frestaður skattskyldur hagnaður af sölu hlutabréfa sem ríkisstjórn, með jafnaðarmannaflokk Íslands innanborðs, ætlar að afhenda fyrirtækjunum á einu bretti. Skattstofn upp á 600 milljarða kr. ef ég veit rétt eða þar um bil.

Hver er rökstuðningur meiri hluta nefndarinnar hér í framhaldsnefndaráliti? Þar segir: „Meiri hlutinn telur ekki líklegt að ríkissjóður eigi, að óbreyttum lögum, eftir að uppskera miklar tekjur vegna frestaðra skattskuldbindinga.“ Þetta eru nú nákvæmnisvísindin, meiri hlutinn telur ekki líklegt að ríkissjóður eigi eftir að uppskera miklar tekjur. Heyrðu, við skulum bara gefa þeim þetta eftir strákar — ég held að þetta séu nú allt karlar sem skrifa hér undir nefndarálitið. Þannig er nú örlæti þeirra og þetta er í stíl og í takt við annað sem þessi ríkisstjórn — og reyndar sú fyrri líka, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur í báðum tilvikum ráðið ferðinni — hefur staðið fyrir. Það er búið að búa til bómullarumhverfi, bómullarumhverfi í skattalegu tilliti, fyrir gróðafyrirtæki, fyrir hátekjufólk, fyrir stóreignafólk með niðurfellingu eignaskatta og fyrir fjármagnstekjuhafa. (Gripið fram í: Lífeyrissjóðir.) Þetta eru hinar miklu skattkerfisbreytingar á undanförnum árum.

Það er auðvitað sérstakt umræðuefni, og til þess þyrfti góðan tíma, að ræða það afrek Sjálfstæðisflokksins, sem hann fékk Framsóknarflokkinn með sér í, að fella niður hátekjuskatt. Að fella niður þetta litla álag sem var á hæstu laun í landinu, 4% skitin, sem voru á tekjur fyrir ofan viss mörk. Hvenær var það gert? Það var gert á tímum ofurlaunanna. Það var gert þegar ofurlaunin komu til sögunnar á Íslandi, einmitt þá, á þeim árum, gerði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks það að forgangsverkefni að fella niður skattinn.

Eftir á að hyggja, og skoðað í ljósi efnahagsaðstæðna nú, og hagstjórnarmistakanna sem menn gerðu í þenslunni, er það sennilega fráleitasta ráðstöfunin af öllum. Sennilega fráleitasta ráðstöfunin af öllum, sú félagslega óréttlátasta og dapurlegasta og auðvitað til marks um það hversu glórulaust frjálshyggjuofstækið er í Sjálfstæðisflokknum, sérstaklega þegar kemur að þessum hlutum. Hvað gerir ríkisstjórnin sem nú er komin með völd? Hver eru hennar fyrstu mál í skattalegu tilliti? Lækka skatta enn á gróðafyrirtækjum um þrjú prósentustig og munar um minna, úr 18% niður í 15%, og það er gert strax — gefnar væntingar um að launamenn fái kannski einhverja leiðréttingu skattleysismarka í áföngum á þremur árum, en fyrirtækin skulu fá allt sitt strax.

Og svo kemur þessi sumargjöf núna. Sumargjöf ríkisstjórnarinnar til stóru fjármálafyrirtækjanna og þeirra sem hafa grætt, mynduðu gríðarlegan gróða með viðskiptum með hlutabréf á umliðnum árum. Réttlætingin er, að því er virðist, tvíþætt: Annars vegar séu herrarnir að talsverðu leyti farnir með þennan gróða úr landi og þar með ekki líklegt að ríkissjóður hefði að óbreyttu fengið mjög miklar tekjur af þessu. — Þetta er nú örlæti, verð ég að kalla, og ekki í miklu samræmi við þá skattaframkvæmd sem gildir almennt gagnvart öðrum sem eru hundeltir, boðnir upp. Almennir launamenn, eigendur smáfyrirtækja — ef þeir ná ekki að standa í skilum eða geta ekki borgað til baka ofgreiddar bætur eða útistandandi vörsluskatta eða annað því um líkt er ekki miskunninni að mæta hjá ríkisstjórninni eða innheimtumönnum. En hér skal örlætið ríkja, hér er gæska ríkisstjórnarinnar takmarkalaus. (Forseti hringir.)