135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[17:25]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að ég hafi tíu mínútna ræðutíma.

(Forseti (ÁRJ): Fimm mínútur.)

En klukkan er eitthvað að hrekkja okkur þannig að ég ... (Gripið fram í: Nei, það er nú misskilningur.)

(Forseti (ÁRJ): Það er misskilningur. Það eru fimm mínútur í síðari umferð því að ræðutími er sá sami og í fyrri umferð í 3. umræðu frumvarps.) (Gripið fram í: Þú mátt tala aftur og aftur í ...) (Gripið fram í: Nei.)

(Forseti (ÁRJ): Nei.)

Við frumvarp, lagafrumvarp?

(Forseti (ÁRJ): Já.)

(Gripið fram í.) (Gripið fram í: Nei, nei.)

(Forseti (ÁRJ): Þetta er 3. umræða.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Já, já.)

Já, þetta er 3. umræða. Þá eru það fimm mínútur.

(Forseti (ÁRJ): Já.)

Fyrirgefðu forseti. Að efast um þekkingu forseta á þingsköpum! En svona getur það gerst.

Ég vil geta um breytingartillögu sem ég flyt ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Paul Nikolov til breytinga á þessu hrófatildri sem frumvarp er kallað og er kannski fullvirðulegt nafn fyrir innihald þess. En breytingartillagan gerir ráð fyrir því að breyta frumvarpinu á þann veg að verði hún samþykkt þá verður felld niður heimild til að fresta söluhagnaði og hann gengur þá til skatts hverju sinni það ár sem hann myndast og úr frumvarpinu eru felld ákvæði um að fella niður eldri skuldbindingar og felld niður úr frumvarpinu ákvæði um að heimila frádrátt frá framtíðarsöluhagnaði með því að lækka aðrar tekjur fyrirtækisins. Ef breytingartillagan nær fram að ganga þá verður lagabreytingin með þessum hætti.

Ég vildi vekja athygli á því, virðulegi forseti, að eitt af því sem gerð hefur verið athugasemd við er skortur á löggjöf til að taka fyrir þennan möguleika sem er sá, og ég nefndi í fyrri ræðu minni, að það er hægt að flytja fjármagn á milli landa og koma sér undan skattlagningu hér á landi á söluhagnaði. Það er í raun til viðbótar þeim söluhagnaði sem frumvarpið tekur á og þá er til söluhagnaður sem aldrei hefur verið talinn fram hér á landi heldur verið fluttur aðallega til Hollands og Lúxemborgar, þ.e. um 450 milljarðar kr. á þremur árum, mest af því til Lúxemborgar og Hollands sem þannig hefur verið flutt undan lögsögu íslenskra skattyfirvalda (Gripið fram í.) og það hefur verið gerð athugasemd við það. Meðal annars kemur það fram í ábendingum sem Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, hefur gert grein fyrir opinberlega og hann segir frá því í einni grein sinni í vetur að tillögur skattyfirvalda um úrbætur í þessum efnum hafi legið á borðum stjórnvalda árum saman án þess að þeim hafi verið sinnt, virðulegi forseti, án þess að þeim hafi verð sinnt. Það er því meðvituð ákvörðun ráðherranna og stjórnarmeirihlutans á undanförnum árum sem hafa vitað um þessar athugasemdir að sinna þeim ekki þrátt fyrir ábendingar aðila í skattkerfinu, virðulegi forseti. Það er ekkert utan úr bæ. Það eru aðilar í skattkerfinu. Það er á það bent í grein Indriða að með þessum möguleika sem er hafður opin og ekki tekið fyrir er verið að snuða ríkissjóð Íslands um háar fjárhæðir sem ættu að renna í hann en gera ekki vegna þess að þessi glufa í lögunum er höfð opin og ábendingum um úrbætur á löggjöf er ekki sinnt, virðulegi forseti. Í grein Indriða H. Þorlákssonar frá því í mars í vetur segir, með leyfi forseta:

„Erlent eignarhald á íslenskum félögum, hvort sem það er raunverulega erlent eða dulið íslenskt eignarhald, hefur mikil áhrif á tekjur ríkisjóðs.“

Um þetta hefur stjórnvöldum verið kunnugt. Ég veit ekki hvort hv. formanni nefndarinnar, Pétri H. Blöndal, hefur verið kunnugt um þetta en alla vega hefur fjármálaráðherra sem setið hefur á síðustu árum verið kunnugt um þetta og hefur ekki brugðist við. Það er ekki hægt að kenna samningnum um Evrópska efnahagssvæðið um þetta því þetta er ótengt því. Þetta er bara skortur á vilja íslenskra yfirvalda á síðustu árum til að tryggja að fyrirtæki borgi eðlilegan (Forseti hringir.) skatt til íslenska ríkisins af hagnaði sem verður til hér á landi.