135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[17:32]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög eðlilegt að hæstv. forseti fresti nú þessum fundi og verði við því að fá formann fjárlaganefndar hingað í salinn. Það er ekki viðunandi að við klárum ræðutíma okkar og fáum ekki að heyra þann fyrirvara sem formaður fjárlaganefndar — sem er nú enginn aukvisi — þ.e. að hann geri grein fyrir því hvaða fyrirvara hann hefur við þetta mál. Við erum búin að hlusta á held ég tvo ræðumenn frá Samfylkingunni, aðallega í andsvörum að ég held. Ég hef ekki fest neina sérstaka hönd á því hvað þar fór fram. En ég geri kröfu til þess, hæstv. forseti, þar sem veigamikill foringi í stjórnarliðinu, formaður fjárlaganefndar, gerir sérstakan fyrirvara í þessu máli, að sá fyrirvari komi hér fram svo að við getum tekið mið af honum í umræðunni. Ég veit ekki út á hvað þessi fyrirvari gengur og óska eftir því að hann komi fram.