135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

gerð námsefnis fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum.

276. mál
[17:59]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um gerð skyldunámsefnis fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og mannréttindi. Hér er um að ræða tillögu sem lögð er fram af Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins og felur í sér að Alþingi álykti til samræmis við ályktun Vestnorræna ráðsins um sama efni.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og fengið um það umsagnir frá Jafnréttisstofu, Norræna félaginu, Kvenréttindafélagi Íslands og menntamálaráðuneytinu, auk þess sem málið var lagt fyrir félags- og tryggingamálanefnd og menntamálanefnd Alþingis til umsagnar.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um gerð skyldunámsefnis fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og mannréttindi.

Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í tillögunni og telur að námsefni á borð við það sem hún gerir ráð fyrir geti stuðlað að viðhorfsbreytingu í þá átt að konur njóti aukinna mannréttinda og mannhelgi. Hins vegar telur nefndin að það kunni að ganga gegn sjálfstæði skóla að gera námsefnið að skyldunámsefni og leggur til breytingu á tillögunni þess efnis að um verði að ræða almennt námsefni sem verði aðgengilegt í skólum landsins en ekki skyldunámsefni. Það er því tillaga nefndarinnar að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeirri breytingu að tillögugreinin orðist svo:

Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um gerð námsefnis fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og mannréttindi.

Bjarni Benediktsson og Guðfinna S. Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Kristinn H. Gunnarsson og Björk Guðjónsdóttir.