135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkja og Kanada.

543. mál
[18:06]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti hv. utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu EFTA og Kanada.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa utanríkisráðuneytisins, Benedikt Jónsson og Bergþór Magnússon. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi EFTA og Kanada sem undirritaður var í Sviss 26. janúar sl. Fullgildingarferli er hafið og eru Kanadamenn komnir vel á veg með fullgildingu samningsins.

Samningurinn er sá fyrsti sinnar tegundar sem Kanada gerir við ríki í Evrópu og nær fyrst og fremst yfir vöruviðskipti. Hann hefur jafnframt að geyma ákvæði um að viðræður um sambærilegan samning varðandi þjónustuviðskipti verði teknar upp innan þriggja ára. Sú fríðindameðferð sem Ísland veitir Kanada samkvæmt viðauka 2 við landbúnaðarsamning ríkjanna hefur með einni undantekningu þegar verið veitt fyrir vörur sem upprunnar eru í löndum Evrópusambandsins. Undantekningin er sú að í samningnum við Kanada er veitt lækkun á tolli af frystum, sneiddum og skornum kartöflum úr 76% í 46% en lækkunin er tilkomin að kröfu Kanadamanna.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt og ríkisstjórninni þannig heimilt að fullgilda fríverslunarsamninginn.

Bjarni Benediktsson og Guðfinna S. Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálit þetta rita auk mín hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Kristinn H. Gunnarsson og Björk Guðjónsdóttir.