135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

þjóðlendur.

386. mál
[18:42]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég bíð spenntur eftir að hlusta á hv. þm. Árna Johnsen en ég veit að mér gefst tækifæri til þess á eftir.

Eins og hv. þm. Bjarni Harðarson kom inn á áðan þá ætla ég að fara aðeins betur í frumvarpið sjálft og þær lagabreytingar sem lagt til að verði gerðar og fara kannski örstutt yfir lögfræðina sem kemur fram í greinargerðinni. Þar er farið mjög ítarlega í ástæður fyrir lagabreytingum.

Svo ég reifi örstutt það sem kemur fram í athugasemdum við 1. gr. þá segir þar:

„Lagt er til að í lögin um þjóðlendur verði tekin viðtekin sönnunarregla íslensks réttar, þannig að vefengi ríkið eignarrétt þinglýsts eiganda að jörð hefur ríkið sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingum þess efnis að hinn þinglýsti eigandi hafi ekki eignarrétt að öllu landi innan merkja jarðarinnar. Ríkið verður að sýna fram á að eignarheimild að jörð sé ógild eða sé svo áfátt að sá sem á henni byggir teljist ekki hafa sýnt fram á eignarrétt sinn.“

Í athugasemdum við 2. gr. segir og er þetta til að sýna það jafnræði sem kemur fram í þessu lagafrumvarpi:

„Í fáeinum tilvikum hefur Hæstiréttur dæmt að hluti lands jarðar skuli teljast þjóðlenda og eru dómar þessir byggðir á fyrrnefndri strangri sönnunarreglu mótaðri af Hæstarétti í þjóðlendumálum. Þeir dómar hafa þegar haft réttaráhrif og eru bindandi milli málsaðila. Lagt er til að íslenska ríkið falli frá þeim rétti sem þannig hefur stofnast því til handa og þinglýsi yfirlýsingu þar um á viðkomandi jarðir að eigin frumkvæði og á sinn kostnað. Með þessari reglu er tryggt jafnræði milli jarðeigenda í landinu í þeim skilningi að þeir sitja allir við sama borð sem hafa fært fram sambærileg sönnunargögn fyrir eignarrétti sínum og merkjum jarða sinna.“

Í lögum nr. 58/1998 er ekki að finna sérstakar sönnunarreglur sem gildi í þjóðlendumálum, þ.e. um ágreining um hvort land teljist eignarland eða þjóðlenda. Það kom samt skýrt fram í undirbúningsgögnum laganna að niðurstöður skuli ráðast af almennum sönnunarreglum. Orðalagið er þannig: „Ekki verði í lögum settar sérstakar sönnunarreglur eða lagaskilyrði fyrir því að land teljist eignarland í merkingu laganna, heldur ráðist það af almennum sönnunarreglum og réttarheimildum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki.“

Mig langar í nokkrum orðum að reifa þessar almennu sönnunarreglur og vil því, með leyfi forseta, vísa í útdrátt sem Eiríkur Tómasson hefur gefið út í fyrirlestrum sínum um sönnun. Þar er jafnframt vísað til greinanna Sönnun og sönnunarbyrði sem birtist í Úlfljóti, Réttlát málsmeðferð fyrir dómi — þetta eru greinar eftir Eirík — og Allt orkar tvímælis þá gert er sem birtist í Úlfljóti 2000 og einnig grein Hrafns Bragasonar: Er þörf á að breyta meðferð opinberra mála fyrir Hæstarétti Íslands? Þetta er það sem ég ætla að vísa í almennt um sönnunarbyrði í einkamálum. Þar er meginreglan sú að sá sem staðhæfir að eitthvað hafi gerst verði, ef því er mótmælt af gagnaðila, að færa sönnur á þá staðhæfingu sína. Nokkrar reglur tengjast einmitt þessari meginreglu eins og að sá sem ber fyrir sig eitthvað ómögulegt eða afbrigðilegt verður að sanna slíkt, og sá sem byggir á fráviki frá venju á tilteknu sviði verður sömuleiðis að sanna slíkt.

Hér er vísað í fjölmarga hæstaréttardóma sem hafa staðfest þessa reglu, hæstaréttardóm 1996, bls. 620 í dómasafni Hæstaréttar og bls. 3323 og 3474 og hæstaréttardóm 1997/746. Þetta er hin almenna meginregla sem ég tel að eigi alveg jafnt við í þessum þjóðlendumálum en Hæstiréttur hefur ekki tekið tillit til og þar liggur kannski fyrst og fremst ósanngirnin í þessum málum.

Óumdeilt er að almennt var talið að sú sönnunarregla gilti í ágreiningsmálum um eignarrétt að fasteignum að sá sem taldi til eignarréttar yfir fasteign, sem var þinglýst eign annars, bar sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingu sinni um betri rétt. Þetta er orðað mjög svipað og sú meginregla sem ég vísaði til áðan og í greinargerðinni er vísað til hæstaréttardóms 1961, bls. 629, samanber og Þorgeir Örlygsson: Kaflar úr eignarrétti I , handrit til kennslu við lagadeild Háskóla Íslands, Reykjavík 1998, en ekki síður til Ólafs Lárussonar: Eignarréttur I , Reykjavík 1950. Þar segir m.a. á bls. 150, með leyfi forseta:

„Það mundi vera rétt að telja þann mann, sem hefur þinglýsta heimild til eignarinnar, eiga tilsvarandi rétt yfir henni, þar til annað sannaðist, með öðrum orðum, sá sem vill vefengja heimild, sem styðst við veðmálabækurnar, myndi hafa sönnunarbyrðina um það, að sú heimild væri ógild.“

Verður að ætla að þegar þjóðlendufrumvarpið var til umræðu og ákvörðunar á Alþingi, þá hafi alþingismenn við samþykkt frumvarpsins gengið út frá því að þinglýstar eignarheimildir og þar með þinglýst landamerkjabréf hefðu sama sönnunargildi sem fyrr og að eigendur jarða með þinglýst landamerki mættu treysta því að við merkjum jarða þeirra yrði ekki hnikað nema fram kæmi sönnun um heimildarbrest þeirra.

Annað kom á daginn eins og þjóðlendumálin sýna öll og má ráða af samtölum við þingmenn sem samþykktu þetta skilja þeir það svo að þessi almenna sönnunarregla hafi átt að gilda og telja að ríkið hafi gengið of langt þegar það hóf að gera kröfu fyrir óbyggðanefnd um hvernig draga skyldi línur milli þjóðlendna og eignarlanda einstakra jarða. Þá kemur einnig í ljós að ríkið virti ekki eignarheimildir samkvæmt þinglýstum landamerkjabréfum sem eigendum jarða hafði verið skylt að gera samkvæmt fyrirmælum í eldri landamerkjalögum, nr. 5/1882, og yngri landamerkjalögum, nr. 41/1919.

Það kom á óvart að Hæstiréttur féllst óvænt á röksemdir ríkisins um takmarkað sönnunargildi þinglýstrar eignarheimilda að fasteignum og gerði um leið þær kröfur til eigenda jarða, sem ríkið gerði eignartilkall til, að til viðbótar þinglýstum landamerkjabréfum samkvæmt landamerkjalögunum frá 1882 eða 1919 yrðu þeir að leggja fram frekari og eldri gögn sem styddu sannindi hinna þinglýstu landamerkjabréfa. Í þessu felst í stuttu máli að Hæstiréttur lítur svo á að það væru eigendur jarðanna sem gerðu eignartilkall á hendur ríkinu og því bæru þeir sönnunarbyrðina um eignarrétt sinn að landi innan þinglýstra landamerkja. Og það er engum blöðum um það að fletta að um leið er staða landeigenda gerð mjög erfið og þeir þurfa að leggja í gríðarmikla vinnu og kostnað við að grafa upp þessi gögn sem í mörgum tilvikum er algerlega ómögulegt að finna.

Það sem kom kannski líka á óvart var að Hæstiréttur gerði ekki neinar sönnunarkröfur á hendur ríkinu þess efnis að það sýndi fram á að eignarheimildum þinglýstra eigenda væri áfátt. Hér teljum við sem leggjum fram þetta frumvarp að hafi verið um algerlega nýja sönnunarreglu í íslenskum rétti að ræða, og undir það taka lagasérfræðingar og prófessorar, án þess að reglan ætti stuðning í ákvæðum þjóðlendulaga eða öðrum réttarheimildum. Því miður verður ekki ráðið af dómum Hæstaréttar hvert er tilefni mótunar þessarar nýju sönnunarreglu og hvers vegna þörf var á nýrri og strangari sönnunarreglu þrátt fyrir þær forsendur í undirbúningsgögnum laganna að almennar sönnunarreglur íslensks réttar skyldu gilda um mat á eignarheimildum. Sem betur fer bendir einn hæstaréttardómari einmitt á þetta atriði í sératkvæði sínu. Í sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 27/2007, sem kveðinn var upp hinn 4. október 2007, segir m.a., með leyfi forseta:

„Ég tel að í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar hafi rétturinn á ýmsan hátt gert strangari kröfur til sönnunarfærslu um eignarréttindi að fasteignum en rétt hefði verið að gera og finna má einnig eldri fordæmi fyrir að áður hafi verið gert.“

Það er undarlegt að Hæstiréttur skuli ekki í þjóðlendudómum sínum hafa fallist á þessar röksemdir og röksemdir landeigenda og lögmanna þeirra án þess þó að rökstyðja að skilyrði aukinnar sönnunarbyrði eigi sér lagastoð.

Nú vil ég taka það fram að ég ber fullt traust til Hæstaréttar og tel að hann sé réttsýnn og við landsmenn búum vel að eiga góðan Hæstarétt, en hvort sem hann hefur rétt fyrir sér eða ekki þá er þessi regla ósanngjörn. Hún er líka nýmæli og með þessu frumvarpi er einfaldlega verið að rétta við þann órétt sem við teljum að landeigendur hafi því miður verið beittir. Landeigendum, núverandi eigendum jarða, var nánast gert ókleift að axla þá sönnunarbyrði sem Hæstiréttur lagði á þá samkvæmt framansögðu en nú eru liðin fjögur kynslóðabil frá því að megnið af landamerkjabréfunum voru gerð og þeim þinglýst og því er afar ólíklegt að varðveist hafi þau gögn og upplýsingar sem landamerkin voru byggð á. Það sem er kannski ósanngjarnast í þessu er að það er í rauninni hending ein sem ræður hvort til eru eldri gögn sem styðja hinar þinglýstu landamerkjalýsingar, það er einfaldlega þannig að þinglýsing á að skera úr um eignarrétt á fasteign og ef einhver vill afsanna það eða sýna fram á að sýslumaður hafi gert mistök ber hann sönnunarbyrðina.

Í þessu frumvarpi er lagt til að úr framangreindu verði bætt, eins og ég kom inn á áðan, með því að orða í lögunum þá almennu sönnunarreglu sem talin var gilda þegar þjóðlendulögin tóku gildi. Það verður líka að hafa í huga að allt frá gildistöku fyrri landamerkjalaganna frá 1882 hefur að meginreglu verið kveðið á um einkarétt jarðeiganda til veiði fugla, fiska og annarra nytjadýra á jörð sinni.

Með vísan til ofanritaðs og þess sem kemur fram í greinargerðinni og í ljósi tilgangs landamerkjalaga má ætla að jarðeigendur hafi mátt vænta þess að jarðir með þinglýstum landamerkjum teljist beinum eignarrétti undirorpnar og þær væntingar njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, samanber einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Núverandi þinglýstir eigendur jarðanna eru ekki höfundar hinna þinglýstu landamerkjabréfa. Þeir hafa eignast jarðirnar í flestum tilvikum fyrir kaup eða arf, en í sumum tilvikum á opinberum uppboðum, og hafa því verið í góðri trú um gildi þinglýstra landamerkja jarða sinna. (Forseti hringir.) Sú góða trú nýtur verndar íslensks réttar.

Ég held ég eigi rétt á að koma aftur í ræðustól og mun því halda áfram þá, ég átti eftir nokkur atriði sem mig langaði að koma inn á.