135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[19:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru nokkur vonbrigði að hv. þingmaður skuli fyrst og fremst tala um fyrirvara sinn sem tæknilegan. Ég hafði satt best að segja verið að gera mér vonir um að hv. þingmaður og krati úr Hafnarfirði ætlaði að koma hér og ræða þetta mál á efnislegri forsendum og ætlaði að standa í lappirnar fyrir hönd jafnaðarstefnunnar eða leifanna af henni sem enn er vonandi að finna í Samfylkingunni.

Það er nú svo að maður gerir sér helst vonir um að fyrir utan hæstv. félagsmálaráðherra sé það kannski hv. þm. Gunnar Svavarsson, eðalkrati úr Hafnarfirði, sem reyni aðeins að passa upp á leifarnar af jafnaðarmennsku og jafnaðarhugsun í Samfylkingunni. Það hefði rímað við að hann hefði á þessu máli hreinan efnislegan fyrirvara vegna þessa örlætis í garð gróðafyrirtækjanna sem hér er á ferðinni.

Hitt virði ég við hv. þingmann að hann ítrekar að það séu atriði í þessu máli sem hann hefði viljað skoða betur og auðvitað eru það gild rök fyrir því að fresta afgreiðslu þess. Það er afar sérkennilegt að í nefndaráliti meiri hlutans er t.d. talað um að endurskoða þurfi tekjuskattslög og að fjármálaráðuneytið viðurkenni þörfina fyrir því. En það megi þá nýta tímann til haustsins til þess, stendur svo hér í nefndarálitinu. Af hverju ekki að fresta þá þessu máli? Er einhver nauðsyn til að knýja afgreiðslu þess í gegn á þessum síðustu vordögum?

Ég tel líka að ekki sé hægt að fullyrða að ekki sé með þessu verið að afsala ríkissjóði tekjum. Hér er um áfallnar skattgreiðslur að ræða, hverra greiðslum hefur verið frestað. Þær er bókfærðar sem þegar áfallinn skattur í bókhaldi fyrirtækjanna sem þau hafa þó ekki þurft að greiða — sem dregur athyglina að hinni hliðinni að þau geta væntanlega, verði þetta að lögum, stórhækkað sinn efnahagsreikning eða eigið fé sitt því það er verið að færa þeim gríðarlega sumargjöf.

Ég (Forseti hringir.) vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé þá ekki til viðtals um að fresta afgreiðslu frumvarpsins, skoða það efnislega í sumar og sjá (Forseti hringir.) hvað fjármálaráðuneytið kemur með í haust?