135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[19:43]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarni Harðarson sagði mér að ég hefði verið mærður svo hér í dag að ég ætti að setja ræðurnar inn á spólu og hlusta á þær ef mér liði illa. Ég held ég setji þetta andsvar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar inn á þá spólu. Ég er í sjálfu sér upp með mér að heyra að ég og hæstv. félagsmálaráðherra stöndum vörð um jafnaðarmennskuna á Íslandi og ekki hvað síst að menn viti að það sé gert í Hafnarfirði alla daga.

En auðvitað er það svo að í ræðu minni og í fyrirvara mínum liggur efnisleg afstaða þó ég hafi tekið það upp á þann veg að þetta snerist um að skoða verklagið og þann útreikning sem af breytingunni leiðir mun frekar, og ég ræddi það sérstaklega í nefndinni. Ég taldi hins vegar ekki ástæðu til að fresta framgangi laganna heldur einfaldlega að koma afstöðu minni á framfæri gagnvart þessu og jafnt sem allar líkur benda til þess, miðað við það skattaumhverfi sem við höfum búið við á grundvelli núgildandi laga, að umræddir skattar muni ekki falla í ríkissjóð.

Ég skal vera fyrstur manna til að segja að umrædd lög á sínum tíma — hafi það verið vilji löggjafans að skattarnir mundu falla í ríkissjóð — það voru í sjálfu sér um ákveðin mistök af hálfu löggjafans, því að umrædd lög eru meingölluð. Ég tel að með þessu móti séum við að fara fram með betri lög en ég ítreka fyrirvara minn.