135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[19:48]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók það sem svo að hv. þingmaður væri að beina því til mín, að ég ætti að gefa enn frekar í vegna þess að ég væri ættaður úr Þingeyjarsýslu eins og hann sjálfur. Þar af leiðandi hlyti þetta nú allt að fara að smella saman á milli okkar.

Auðvitað má segja sem svo að þeirri ræðu sem hv. þingmaður flutti fylgi ákveðin efnisleg rök, ég að neita því ekki. Það eru fjölmargir sem hugsa á sama hátt og hv. þingmaður Steingrímur J. og ég ætla ekkert að vera að gera lítið úr því, enda hef ég ekki gert það hér.

Ég hef hins vegar sagt að fyrirvari minn snúist einmitt um þetta atriði sem ég kom hér að. Ég hefði viljað gefa þessu meiri tíma. Hins vegar tel ég varðandi þessa umræddu skattfrestun að þessar tekjur muni ekki koma í ríkissjóð.

Það má hugsanlega leiða að því líkur að þegar hin nýju lög taka gildi — og við erum farin að sjá breytingar á efnahagsreikningi fyrirtækjanna — muni það hugsanlega leiða af sér að tekjuskattur og arður fyrirtækjanna verði meiri en ella. Það er það sem er jákvætt í lögunum. Þetta er spurningin um á hvora hliðina á peningnum við horfum. Kannski stöndum við báðir, ég og hv. þm. Steingrímur J., ekki á annarri hvorri hliðinni, heldur á röndinni á peningnum og erum svona að hugsa um það hvorum megin við viljum detta.