135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[19:56]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri það að sérstaða mín í málinu vekur hv. þm. Jón Bjarnason upp. Þegar ég horfi hér yfir þingsalinn, virðulegur forseti, má kannski segja að sérstaða mín í þessu máli byggi einfaldlega á því sem ég hef sagt hér í ræðu minni og andsvörum. Ég sé hv. þingmenn í salnum sem hafa verið með sérstöðu í ýmsum málum. Það þarf ekki að vera neitt sérstakt þótt menn séu hér með ákveðinn fyrirvara. Ég hef komið því á framfæri um hvað fyrirvarinn snýst.

Ég sagði í ræðu minni að ég hefði átt orðastað um þetta við þingmenn í efnahags- og skattanefnd, m.a. formanninn, en einnig við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson og Ögmund Jónasson. Þeir höfðu hins vegar önnur sjónarmið uppi um efni frumvarpsins en fylgdu mér í þessu máli, þ.e. hvað athugasemdir mínar varðar. Er þá líkt á komið með okkur í því.

Ég hef hins vegar gert fullkomlega grein fyrir þessu öllu saman og tel að lögin eigi að fá afgreiðslu á þinginu þrátt fyrir að einstaka þingmenn séu með fyrirvara gagnvart þeim.